Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Skólaútskrift í bókakaffi

Kórskóli Elínar útskrifaði 13 nemendur í morgun en skólastofnun þessi er starfrækt í bókakaffinu. Hér sést smá myndbrot frá útskriftinni.

Og dagurinn allur var skemmtilegur, peningahljóðin mikil og margt ágætra gesta leit við. Það er reglulega gaman að vera bóksali á góðum degi.


Gott að sofa hjá Yrsu...

Nei, það er ekki hægt að segja svona, frekar að ég tali um að sofa með Yrsu í fanginu sem hljómar reyndar ekkert betur því að í reyndinni sef ég alltaf hjá sömu konunni og Yrsa þessi er bara bókarhöfundur en giska góður.

Ég er semsagt að lesa nýjasta reifarann hennar Yrsu Sigurðardóttur, Horfðu á mig sem er gríðarlega vel upp byggður og spennandi eins og fleiri bækur hennar.

Fyrir reifaraaðdáendur sem vilja lesa sögu þar sem þeir hafa ekki hugmynd um hver vondi kallinn er fyrr en á síðustu metrunum þá er Yrsa rétti höfundurinn. 


Hvað sárnaði Helgu Kress?

20091020181330340308.jpgEin besta bók þessara jóla er bók Böðvars Guðmundssonar Enn er morgunn. Þarf engan að undra sem las vesturfarabækur sama höfundar. Bók þessi þolir fyllilega samjöfnuð við þær þó ég haldi ekki að hún standi þeim framar. Hér er sögð mikil örlagasaga af þýskum og íslenskum fjölskyldum, nasismanum, stríðinu, ástinni og missinum. Allt skrifað af snilld sem fáir eiga á fórum sínum.

Svo hefur bókin hlotið óvænta auglýsingu þegar fyrrverandi eiginkona skáldsins, Helga Kress, kaus að draga fram að hér væri stuðst við líf og sorgir foreldra hennar, Brunos Kress og Kristínar Önnu Kress húsmæðrakennara sem var systir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.

Í gær var ég að af því í bóksalastarfi mínu í gærdag að ég hefði lesið þessa bók og gæti mælt með henni fyrir alla sanna bókaorma. Þá spyr nærstaddur þessarar spurningar,hvað var það sem Helgu Kress sárnaði svona í bókinni?

Nú þekki ég ekki Helgu þessa, ekki einu sinni hitt hana svo ég viti og er rétt málkunnugur Böðvari. En engu að síður er spurningin í alla staði áhugaverð og algerlega opinber eftir að Helga gerði opinskátt að hún væri ósátt við bókina. Og þetta er ekkert einfalt því öll hin meintu ættmenni Helgu í bókinni eru áhugaverðar, heillandi og þar í leynist enginn skúrkur.

Einfaldasta skýringin er að Helga sé ósátt við lýsinguna á sjálfri sér en Helga heitir hér Eva og er einstaklega heillandi eldri valkyrja í nútímanum sem skilgreinir alla kalla sem hún og aðrar kvenpersónur ættarinnar hafa bæði gifst og skilið við með einu orði, - "drullusokkur".

Móðir Evu er líka sérstaklega heillandi persóna, brothætt en samt stór í gerð sinni. En mig grunar að það hvernig höfundur endar sögu þeirrar konu hafi verið afkomendum hennar ákveðin vonbrigði. Það að húsmæðrakennarinn brotni endanlega undan þunga örlaganna er líka allt annað en átti við í skráðu lífshlaupi Kristínar Önnu Kress sem lést á sjúkrahúsi í Reykjavík komin á níræðisaldur.

En kannski er ég bara á villigötum og kannski sárnaði Helgu Kress bara að enn í höndum manns sem hún hafði löngu skilið við og allt er það skiljandlegt.

Hvað um það, þá á rithöfundurinn Böðvar allar þakkir skildar frá okkur hinum fyrir frábæra bók um mikla hamingju og enn meiri harm.


Arnaldur og aðrir sem ég hef lesið...

Ég var að ljúka við Svörtuloft Arnalds Indriðasonar. Ég tók mér frí frá Arnaldi í fyrra og má segja að ég hafi komið nokkuð fersk að honum í ár. Í Svörtuloftum er lögreglumaðurinn Sigurður Óli í aðalhlutverki og rannsakar hann fólskulega árás á konu. Sú rannsókn leiðir hann inní peningageirann, en bókin gerist á góðæristímanum. Allir eru að græða og allir eru að flýta sér á óskaplega mikilvæga fundi. Aðal skúrkarnir í bókinni hafa gengið græðginni á hönd og má segja að gróðafíknin leiki þá að lokum mjög grátt. Arnaldur er oft með hliðarsögur í sínum bókum og svo er einnig í þessari bók. Sú saga er mjög sársaukafull og átti ég oft erfitt með að lesa þá kafla. Þessi nýjasti krimmi Arnaldar heldur manni því alveg við efnið þó á stundum finnist mér full mikill prédikunartónn í umfjöllun hans um góðærið. Sigurður Óli er líka maður sem ég hef ekki mikinn áhuga á að umgangast dags daglega! Hann er ekki alveg mín týpa!

Aðrar nýjar bækur sem ég hef lesið núna á þessu hausti er bókin Málavextir eftir Kate Atkinsson. Sú bók er spennusaga eins og Svörtuloft en af allt öðrum toga. Því þótt bókin sé spennusaga fjallar hún að mínu viti mest um missi og sorg. Sorgin getur birst okku í ýmsum myndum, t.d. við skilnað. Ef manneskjan gengur sorginni á hönd getur hún líka staðnað, á endanum þurfa flestir að sætta sig við lífið eins og það er og halda áfram.
Margar ljóðabækur hafa komið út í haust og hef ég lesið nokkrar þeirra. Komin til að vera nóttin eftir Ingunni Snædal, Nokkur orð um kulnun sólar eftir Gyrði Elíasson eru ótrúlega heillandi bækur og Hundgá úr annarri sveit eftir Eyþór Árnason er einnig góð. Öll og þó einkum Gyrðir og Ingunn hafa mjög góð tök á íslensku máli. Og melakólían í bók Gyrðis seiðir mann til sín og það sem hefur alltaf heillað mig við ljóð Ingunnar er hvað hún er blátt áfram.

Melankólían sem ég talaði um áðan í ljóðum Gyrðis er líka til staðar í smásagnasafni hans Milli trjánna. Sögurnar hans í þeirri bók eru stundum eins og svart hvítar kyrralífsmyndir og ef eitthvað er í lit fer það ekki fram hjá manni. Einkar heillandi sögur, oft meira um það sem kraumar undir niðri en það sem er á yfirboðinu. Ég las reyndar einnig snemma á þessu hausti smásagnasafn Þórarinn Eldjárn sem ber heitið Alltaf sama sagan. Þær smásögur eru allt annars eðlis en smásögur Gyrðis. Þórarinn er eins og Gyrðir mikill stílisti og húmorinn hjá honum er oft óborganlegur. Ég læt þetta duga um bækur í bil. Nóg er eftir að lesa, um 700 titlar hafa komið út á árinu.

Gleðileg bókajól. Elín


Trommað á bókakaffinu

Það stefnir í met fjör á upplestrarkvöldi hjá okkur í kvöld en þá mæta meðal annarra stórsnillinga hingað í Bókakaffið okkar Árni Matthíasson og Guðmundur Steingrímsson að kynna ævisögu þess síðarnefnda, Papa Jazz. Sá fyrrnefndi les en Guðmundur tekur nokkur sóló á trommuna!

Og skáldagyðjan fær líka sinn skammt því að þessu sinni mæta bæði Þórarinn Eldjárn sem óþarft er að kynna frekara og Selfyssingurinn Sölvi Björn Sigurðsson. 

Og fleiri til. Gunnlaugur Júlíusson hlaupari kemur. Ég veit ekki hvort hann verður á bíl og svo mæta þau Þorsteinn Antonsson og Norma Samúelsdóttir með búsetusögu sína úr Hveragerði.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Lestur hefst klukkan 20:00.


Ljúfar ástarsögur og margskonar kvennafar

20091031205342677410.jpgÉg hélt því fram í síðasta bókabloggi að ástalíf væri fyrirferðamikið í bókaflóðinu og get núna bætt við að það er blandað fjölskyldudrama, mögnuðum sögum af tilfinningum og allskonar skemmtilegu nautnarúsi. En enginn má halda að ég sakni þess að hafa ekki meira af kreppunni í bókmenntunum enda hefði mér þá verið næst að skrifa um hana sjálfur. Þegar upp er staðið er það mannlífið sem stendur upp úr og skiptir máli, ekki kreppuhjal sem er bara fjas um krónur sem voru aldrei til. 

Ég hefi fyrr talað um frábærar bækur Sindra Freyssonar og Sölva Björns Sigurðssonarsem báðar fjalla um konur. Enn ein konubókin og ekki sú lakasta er bók Bjarna Bjarnasonar á Eyrarbakka sem ber nafnið Leitin að Audrey Hepburn.

Þetta er hugljúf kvennafarssaga fagurkera sem leitar að ástinni í evrópskum heimsborgum og finnur gildi lífsins í barnauppeldi á Eyrarbakka. Bókin er að sönnu ekkert stórvirki en hverrar blaðsíðu virði og reglulega vinalegt koddahjal okkur sem orðnir erum gamlir og dettur einstaka sinnum í hug að sakna gamalla kvennafarsdaga...


Þegar Stalín er bestur!

Í fyrra bókabloggi um ævisögur og sölu þeirra gleymdi ég alveg að minnast á bók Jóns Karls Helgasonar um Ragnar í Smára sem er vitaskuld ein besta bókin í ævisöguflokknum en ég hlýt samt að efast um að hún verði söluhæst ævisagna,- þó hún kannski eigi það skilið. Til þess er efnið orðið of fjarlægt og mér liggur við að segja sérviskulegt inni í nútímanum, - bloggaði reyndar hér fyrr um þessa bók, sjá http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/entry/985559/

Önnur ævisaga sem vel ætti skilið að fara víða er stórvirki Óskars Guðmundssonar um Snorra en ég er samt ekki viss um að það gerist, til þess hefði bókin þurft jákvæðari dóma gagnrýndenda til þessa og hér er líkt og í verki Jóns Karls um að ræða bókarhlunk sem höfðar ekki endilega til alþýðu manna. Sjálfur á ég eftir að lesa Snorra og ætla mér að eiga það eftir til jólanna en get af stuttri skoðun fullyrt að fyrir alla Sturlungaaðdáendur er þetta skyldulesning.

Af íslenskum ævisögum er bók Árna Heimis Ingólfssonar líklega best heppnuð en þá fer ég líka að dæmi bókatíðindanna og flokka bók Vilborgar Davíðsdóttur um Auði sem skáldverk. Við þurfum reyndar ekkert að velta flokkuninni á Auði of mikið fyrir okkur - getum einfaldlega flokka hana sem eina af allrabestu bókum þessara jóla.

En besta ævisagan sem kemur út á íslensku er bók Montefiore um Stalín hinn unga í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Ég las þessa bók á ensku síðasta vetur og get fullyrt að það er langt síðan jafn safarík og merkileg ævisaga hefur ratað á vindlaborðið mitt. Það er að vísu afar klaufalegt hjá Skruddu að auglýsa bók þessa sem bók um umdeildan stjórnmálamann,- Stalín er það ekki frekar en Hitler. Allir sem einhverja glóru hafa viðurkenna að báðir voru fyrst og fremst illmenni en líka miklir örlagavaldar í sögunni.

 


Ástir og nautnir en ekki kreppuhjal

Einhverjir áttu von á að kreppan, hvítflibbaglæpir og pólitísk spilling yrði fyrirferðamiklir þættir í íslenskum skáldverkum ársins en það fór ekki svo. Ef frá er taldir reifarinn Síbería eftir Fritz Má og Hyldýpi Stefáns Mána fer ótrúlega lítið fyrir öllum vondu köllunum sem komu Íslandi á hausinn. Í fljótu bragði man ég ekki eftir sögu sem fjallar um búsáhaldabyltinguna að gagni.

Úps, ég sleppi reyndar glæpasögu Ævars Arnar Jósepssonar Önnur líf enda er hún einfaldlega ekki komin í hús en verður spennandi viðbót, Ævar er einfaldlega einn þeirra bestu en oft seinn á markaðinn.

Ég hef fyrr bloggað um frábæra allegóríu Óttars Norðfjörð um kreppuna og græðgina sem heitir Paradísarborgin, mögnuð bók en þar er ekki farið ofan í beina umfjöllun um atburði liðinna missera heldur eru þeir teygðir og togaðir í skemmtilegri myndlíkingu.

Það er umhugsunarefni að einmitt nú í kreppunni skrifa íslenskir rithöfundar mest um fjölskyldudrama, konur, ástir, kynlíf, nautnir og vitaskuld ef pólitík þá pólitík löngu liðinna daga. Nánar í næsta bókabloggi.


Metsölulistinn frá 2. des. - 8. des. 2009

Metöslulisti 2. des - 8. des. 2009

1. Svo skal dansa - höf. Bjarni Harðarson - útg. Veröld (1.)
2. Ný von að morgni - Ólafur Helgi Kjartansson - útg. Vestfirska (8.)
3. Þá verð ég farinn - höf. Hafliði Magnússon - útg. Vestfirska (aftur inn)
4. Galdrasteinninn - höf. Harpa Dís Hákonardóttir - útg. Salka (ný)
5. Sagnabrot Helga í Hólum - höf. Helgi Ívarsson - útg. Sunnlenska bókaútgáfan (2.)
6. Útkall við Látrabjarg - höf. Óttar Sveinsson - útg. Útkall ehf (ný)
7. Harmleikur í Héðinsfirði - höf. Margrét Þóra Þórsdóttir - útg. Tindur (ný)
8. Almanak HÍ 2010 - / - Háskólaútgáfan (ný)
9. Ef væri ég söngvari - höf. Ragnheiður Gestdóttir myndskreytti og valdi- útg. MM (aftur inn)
10. Þvílík vika - höf. Guðmundur Brynjólfsson - útg. Vaka Helgafell (ný)


Eyþór, Matthías, Gyrðir og fleiri góðskáld á ljóðakvöldi

matti_joh.jpgUpplestrarkvöld vikunnar í Sunnlenska bókakaffinu verður að þessu sinni helgað ljóðlistinni. Til leiks mæta ljóðskáldin Eyþór Árnason, Matthías Johannessen, Gyrðir Elíasson, Gunnar M.G., Draumey Aradóttir, Bjarni Bjarnason og Steinunn Hafstað. Húsið opnar klukkan 20 fimmtudagskvöldið 10. desember en upplestur hefst stundvíslega klukkan 20:30. Ekki missa af einstökum menningarviðburði.


Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband