Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Menning og listir

Kýr og menning og handbók um hugarfar

handbok_hugarfarÓkei, sagði Gísli. En sem venjulegur áhorfandi að heimildamynd um kýr verð ég að fá skýr dæmi um hvernig kýr og menning hanga saman. Hvernig ætlarðu að koma svona flókinni kenningu frá þér í einni heimildamynd...

- Úr bókinni Handbók um hugarfar kúa sem er splunkuný skáldfræðisaga eftir Bergsvein Birgisson og fjallar um menningarfræðing sem tekur að sér að gera heimildamynd um íslensku kúna og kemst þá að því að virðingarstaða kúa endurspeglar hugarfar mannanna. Stórmerkileg lesning.


Látum listina tala

barbarismi
 

Villimennska og menning heitir þessi teikning í 70 ára stórpólitískri skopteikningabók, Europe since Versailles og á þessum síðustu og verstu tímum er líka rétt að leyfa listinni að tala og kannski aldrei betur gert en hjá meistara Van Gogh sem seldi reyndar ekki nema eina mynd í lifandi lífi en varð heimsfrægur dauður.

van_gogn

Í listaverkahillum bókakaffisins er mikið úrval af listbókum, innlendum og erlendum, nýjum og afgömlum...


Bók sem heitir kannski núll og e

Það eru til svo skrýtnar bækur að það er ekki einu sinni hægt að vita hvað þær heita, hvað þá eftir hvern þær eru eða hvaðan komnar. Allt sem ég veit um bókina sem heitir kannski núll og e eða núll strik e er að hún er gefin út einhverntíma fyrir 14. júní 1984 og Bragi Halldórsson í Aðalstræti 2 á Akureyri átti einhverntíma eintak af henni. Það eintak sem hann merkti sér með dagsetningu er nú í bókabúðinni okkar. Kápusíðan er svona:

kapanullogfimm

Kannski er þetta alls ekki O - E heldur einhver allt önnur tákn. Svo kemur titilsíðan og þar á eftir birtum við hér eina venjulega efnissíðu og erótísku síðuna sem er frekar aftarlega. nullogfimm  nullogfim oge5

 

 

 

 

 

 

 

Nánari upplýsingar um þessa dularfullu bók sem fæst hjá okkur í skrýtibókahillunni eru vel þegnar.


Kynmök með álfum

havesex
 

Í bókinni 50 crazy things to do in Iceland er stungið upp á ýmsu skrýtnu og skemmtilegu sem gera má á Íslandi, allt frá leirböðum, steypibaði undir fossum og svo kannski það merkilegasta af öllu, have sex with elves.

50crazy

Gerð er lauslegt grein fyrir álfaþjóðinni og mökum hennar við mannfólkið í 1000 ára sögu. Þess er þar með getið að fullt af Íslendingum hafi haft ástir með álfum og jafnvel getið með þeim börn og þó svo að hér sé tekið nokkuð djúpt í árinni er bókin sem þau skrifa saman Snæfríður Ingadóttir og Þorvaldur Örn Kristmundsson hin skemmtilegasta aflestrar og óvitlaus um margt.

 


Þjóðleg fjallganga á þjóðhátíðardegi

3386Eftir skrúðgöngu, rjómavöfflur og jafnvel ræðuhöld er ekkert eins hressandi eins og að ganga á fjall. Hestfjall í Grímsnesi tekur 1 - 2 tíma og gott að fara frá bænum Vatnsnesi. Samkvæmt bókinni Íslensk fjöll er þetta auðveld ganga með fallegu útsýni yfir helsta láglendi landsins. Frásögninni lýkur á eftirfarandi:

Í fornum munnmælum er sagt frá feiknlegu skrímsli sem liggi í göngum undir Hestfjalli. Skríði ófreskjan upp úr göngunum fellur Hvítá inn í þau og áin þornar fyrir neðan.

(Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, MM. litprentuð 300 síðna bók á aðeins 3990)


Hugo de Hugo tekst á við lífið

Stundum finnst mér ég vera mjög einmana
Þótt ég hafi þúsund manns í kringum mig.

Stundum finnst mér ég eiga vini
En það er aðeins bergmál frá fyrri tíð.

Stundum finnst mér ég geta gert allt
En það endar með bjórdós fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

(Hugo de Hugo: Ljóð út úr skápnum. Þýðendur Pawel Bartazek og Tristin N. Goodmanson. Reykjavík 1999. Ljóðabókahillan í fornbókaherberginu.)


Ekki dreyma reiðhjól...

draumabokAð sjá í draumi reiðhjól boðar þér, að þú munir lenda í miklum vanda, sem nokkurn tíma mun taka að þú fáir leyst. Að hjóla upp brekku táknar að þú munir að lokum sigrast á erfiðleikum þínum, en að hjóla niður brekku, að lífið muni fara um þig ómjúkum höndum, en þó munu þér berast þung tíðindi, þegar þú væntir þeirra síst...

Draumabók Leifturs 1954, kr. 1200 í sjaldgæfu hillunni í fornbókahorninu okkar...


Er Arnaldur ekki bara að fordæma sjálfan sig?

Er byrjaður á bókinni "Myrká" eftir Arnald Indriðason. Hef aldrei verið mikill aðdáandi hans og þá sérstaklega fyrir ófrumleika sinn nema kannski í fyrstu bókinni sinni, "Synir duftsins" en eftir þá bók hefur hann náð að halda sig niðri með hálf leiðingjörnum löggu-thrillerum þar sem aðalpersónurnar glíma við ótrúleg persónuvandamál sem jaða við að vera bókaútgáfa af CSI. Sem dregur mig að aðalmálinu.myrka

Það er skemmtileg lýsing Arnaldar í sögunni á Hollywood-glæpaþáttum þar sem hún lýsir persónunum í þeim þáttum meðal annars að þær eru nafurskjótar að leysa mál og sífellt að vitna í heimsbókmenntir á meðan þær ná vondu köllunum, sem tekst alltaf. Það mætti einnig bæta við að til að brjóta upp atburðarrásina í þáttunum þá bæta handritahöfundarnir inn persónulegum vandamálum aðalpersónanna.

Í bókum Arnalds er það þannig að það tekur eina bók að leysa málið. Þetta tel ég nú vera nafurskjótt þar sem mörg mál hafa tekið fleiri mánuði, jafnvel ár að leysast. Síðan má einnig sjá það að Erlendur, aðalpersónan í flestum bókum Arnalds hefur sést vitna í svokallaðar heimsbókmenntir Íslands. Í bókum Arnalds næst eða uppgötvast alltaf hver vondi kallinn er. Síðan eru það persónulegu vandamálin. Erlendur, aðalpersóna Arnalds, á í einhverjum mestu vandamálum með fjölskylduna sína þar sem enginn úr henni vill tala við hann. Þá bendi ég á aðalpersónu glæpaþáttanna, CSI: Miami, Horatio Cane. Hann á í mjög svo svipuðum vandamálum við sína fjölskyldu.

Að svo stöddu tel ég að Arnaldur þurfi að fara í endurnýjun á sínum stíl og kannski að endurnýja hugmyndir sínar.


Burðarlasinn ekkjumaður sem dó í Stórubólu

Á árunum 1697-1707 bjó í Keldnakoti í Flóa maður að nafni Þorvaldur Jónsson. Hann mun fæddur 1635 og er húsmaður  á Skúmsstöðum á Eyrarbakka 1681. Talinn í manntali 1703 ekkjumaður "burðarlasinn," dó í Stórubólu 1707. Dætur átti hann þrjár og er af þeim nokkur saga.

 

Þannig hefst þáttur Helga Ívarssonar um Þorvald í Keldnakoti þar sem segir fráfjölmörgum merkum Flóamönnum, þar sem fléttað er saman heimildum 18., 19. og 20. aldar en þátturinn er skráður á þeirri 21. 

 

Þegar ég skráði örnefni í Brattsholti 1983 var áberandi vallgróin rúst vestan við túnið nefnd Þórutóft nr. 13 á örnefnaskránni. Sigurður Pálsson fæddur í Brattsholti 1895 var heimildarmaður minn þarna um örnefnin. Taldi hann að þarna hefði verið kofi einsetukonu með þessu nafni en kunni á henni engin deili. Í huga mér er óljós sögn um að konan í kofanum hafi verið Þóra Bergsdóttir sem þarna hafi búið sín síðustu ár. Set ég þetta hér með stærsta fyrirvara því sögnin er óviss.

 

Ekki er þó gaman að guðsspjöllunum ef enginn er í þeim bardaginn og því eru í þáttum Helga ýmsir bardagar:

 

Þeirrar orsakar vegna að hérnefnd Margrét hafði uppá sig játað í votta viðurvist að hún hefði tekið með leynd eina á frá nefndum Ingimundi, skorið hana á næturtíma og falið síðan í poka, niður í brunni falið og þetta sama höfðu leitarmenn fundið þá þeir það rannsökuðu. Er nú Margrét áðurnefnd hér persónulega nálæg og játar nú sem fyrr þetta allt satt að vera: En öngva segir hún í þessu verki með sér hafi hvörki í ráðum né dáðum.

 

Sjá nánar í kveri því sem út kemur þegar líður að hausti, sjá nánar http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/entry/875558/

 

 


Dan Brown = Ian Flemming

dan_brown

Myndin "Englar og djöflar" var frumsýnd núna fyrir stuttu. Eins og flestir vita er hún gerð eftir samnefndri bók eftir höfundinn heimsfræga Dan Brown. Bókin er nokkuð góð og höfundurinn nær að spila vel úr staðreyndum án þess að breyta þeim of mikið. Hún er vissulega betri en bókin "Da Vinci lykillinn" þar sem sagan gerist óttalega hægt og eiginlega alltof lítið gerist á hverri síðu og þannig nær höfundur að lengja bókina með einstaklega leiðinlegum og of rómantískum lýsingum á umhverfinu.

Það var líka gerð mynd eftir þeirri bók sem var eins og bókin, ekki upp á marga fiska. Þrátt fyrir það náði sú mynd bókinni betur heldur en myndin "Englar og djöflar" náði sinni bók. Í "Da Vinci lyklinum" gerðist meira og minna allt eftir bókinni. Hún gerðist hægt, persónan sem hann Tom Hanks lék var mjög stirð og hundleiðinleg og franska leynilögreglan hélt uppi skemmtilegri alhæfingu Frakka, semsagt mjög hrokafullur.

Myndin "Englar og djöflar" breytir bókinni frá því að vera mjög fræðandi og fyndin í að vera eins og einhver James Bond thriller með alltaf töff aðalpersónu sem minnir helst á persónu Ian Flemmings, James Bond. Einnig hefur hún tekið að sér sama hraða og margar kjánalegar Hollywood myndir gera.

Það er leiðinlegt að sjá hvernig Hollywood tekst að eyðileggja fínar bókmenntir bara til að heilla til sín nokkra áhorfendur og græða peninga. Og ef ég vitna í Robert Plant: "In the old days, this would be called selling out."

gbv.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband