Færsluflokkur: Bloggar
13.1.2010 | 10:11
Í evrópsku fárviðri
Eftir að hafa hesthúsað ókjörum af nýjum bókum síðustu tvo mánuði var það kærkomið um jólin að hafa val. Slíkir eru vitaskuld kostir bóksala að verða að grípa ofan í það helsta sem kemur út í jólabókavertíðinni og eru svo sem engir afarkostir. Jólavertíðin í ár var góð og enn á ég þar eftir stafla sem bíður síns tíma á náttborðinu.
En frelsið til að velja færði mig á áramótum að bók sem ég er að lesa nú í þriðja sinn og eldist afskaplega vel í bókahillunni. Þetta er sjálfsævisaga austurríska rithöfundarins Stefáns Sweig (1881-1942), Veröld sem var. Stórfræg bók sem oft er vitnað til og hér er full innistæða fyrir frægðinni. Þetta er afar óvenjuleg sjálfsævisaga því persóna Stefáns er í aukahlutverki en þjóðfélagshræringar Evrópu í aðdraganda tveggja heimsstyrjalda leika aðalhlutverk.
Þó vandræðastandi mála á Íslandi síðustu misserin verði engan veginn líkt við þær hörmungar sem Evrópa gekk í gegnum á fyrri hluta 20. aldar þá á bók þess mikið erindi til okkar. Hér er líst af miklu næmi og hreinskilni fárviðri öfga og uppgjörs, múgsefjunar og viðbrögðum hins almenna borgara við heimsku og varmennsku valdhafa. Hlutverk skáldsins sjálfs í sögunni verður að lýsa fyrir okkur innri togstreitu listamannssálar sem þráir frið og ró en veitist honum ró, þráir hann hættuspilið á nýjan leik." Og Stefán Sweig sem situr á hátindi frægðar sinnar fimmtugur árið 1931 fékk sinn skammt. Hin duldu máttarvöld lágu hér á hleri segir höfundur og reiddu hátt til högg. Metsöluhöfundurinn og gyðingurinn Stefán Sweig var fyrirlitinn í ríki nasismans, bækur hans brenndar og sjálfur féll hann fyrir eigin hendi landflótta maður á heimili sínu í Petropolis í Brasilíu.
Þjóðernisöfgar fá að vonum fyrir ferðina í vægðarlausum og hárfínum skrifum Sweig en ekki síður hverskyns yfirdrepsskapur, valdhafadýrkun og úrkynjun skrifræðisins. Höfundur er alla ævi óflokksbundinn og fyrirlítur þá klafa sem reynt er að setja hugsun og mannlífi. Seinni tíma ESB-sinnar bæði hérlendis og í Evrópu hafa margir horft til Stefans Sweig og reynt að gera að sínum manni en ekkert held ég að væri frjálshuga rithöfundi eins og honum fjær en að styðja það miðstýrða helsi sem Brusselvald leggur nú yfir lönd í útþenslustefnu sinni. Af bókinni Veröld sem var lærum við hvernig gírugir valdhafar reyna að eigna sér skáld og listamenn að þeim fornspurðum, lifandi sem dauð. Höfum það hugfast næst þegar við heyrum málpípur Brusselvaldsins helga sér Stefán Sweig.
(Áður birt í Lesbók Morgunblaðsins)
Bloggar | Breytt 16.1.2010 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 18:52
Hvað sárnaði Helgu Kress?
Ein besta bók þessara jóla er bók Böðvars Guðmundssonar Enn er morgunn. Þarf engan að undra sem las vesturfarabækur sama höfundar. Bók þessi þolir fyllilega samjöfnuð við þær þó ég haldi ekki að hún standi þeim framar. Hér er sögð mikil örlagasaga af þýskum og íslenskum fjölskyldum, nasismanum, stríðinu, ástinni og missinum. Allt skrifað af snilld sem fáir eiga á fórum sínum.
Svo hefur bókin hlotið óvænta auglýsingu þegar fyrrverandi eiginkona skáldsins, Helga Kress, kaus að draga fram að hér væri stuðst við líf og sorgir foreldra hennar, Brunos Kress og Kristínar Önnu Kress húsmæðrakennara sem var systir Gunnars Thoroddsen forsætisráðherra.
Í gær var ég að af því í bóksalastarfi mínu í gærdag að ég hefði lesið þessa bók og gæti mælt með henni fyrir alla sanna bókaorma. Þá spyr nærstaddur þessarar spurningar,hvað var það sem Helgu Kress sárnaði svona í bókinni?
Nú þekki ég ekki Helgu þessa, ekki einu sinni hitt hana svo ég viti og er rétt málkunnugur Böðvari. En engu að síður er spurningin í alla staði áhugaverð og algerlega opinber eftir að Helga gerði opinskátt að hún væri ósátt við bókina. Og þetta er ekkert einfalt því öll hin meintu ættmenni Helgu í bókinni eru áhugaverðar, heillandi og þar í leynist enginn skúrkur.
Einfaldasta skýringin er að Helga sé ósátt við lýsinguna á sjálfri sér en Helga heitir hér Eva og er einstaklega heillandi eldri valkyrja í nútímanum sem skilgreinir alla kalla sem hún og aðrar kvenpersónur ættarinnar hafa bæði gifst og skilið við með einu orði, - "drullusokkur".
Móðir Evu er líka sérstaklega heillandi persóna, brothætt en samt stór í gerð sinni. En mig grunar að það hvernig höfundur endar sögu þeirrar konu hafi verið afkomendum hennar ákveðin vonbrigði. Það að húsmæðrakennarinn brotni endanlega undan þunga örlaganna er líka allt annað en átti við í skráðu lífshlaupi Kristínar Önnu Kress sem lést á sjúkrahúsi í Reykjavík komin á níræðisaldur.
En kannski er ég bara á villigötum og kannski sárnaði Helgu Kress bara að enn í höndum manns sem hún hafði löngu skilið við og allt er það skiljandlegt.
Hvað um það, þá á rithöfundurinn Böðvar allar þakkir skildar frá okkur hinum fyrir frábæra bók um mikla hamingju og enn meiri harm.
Bloggar | Breytt 19.12.2009 kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2009 | 11:15
Eyþór, Matthías, Gyrðir og fleiri góðskáld á ljóðakvöldi
Upplestrarkvöld vikunnar í Sunnlenska bókakaffinu verður að þessu sinni helgað ljóðlistinni. Til leiks mæta ljóðskáldin Eyþór Árnason, Matthías Johannessen, Gyrðir Elíasson, Gunnar M.G., Draumey Aradóttir, Bjarni Bjarnason og Steinunn Hafstað. Húsið opnar klukkan 20 fimmtudagskvöldið 10. desember en upplestur hefst stundvíslega klukkan 20:30. Ekki missa af einstökum menningarviðburði.
Bloggar | Breytt 10.12.2009 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2009 | 14:23
Engin ævisögujól!
(Bókablogg nr. XIIVIIIK)
Ævisögur eru í uppáhaldi hjá bókaþjóðinni og öðru hverju koma út ævisögur sem seljast í fleiri þúsundunum eintaka sem er eitthvað sem skáldsögur, fræðibækur og ljóðabækur eiga enga möguleika á.
En jólin í ár eru ekki feit fyrir ævisöguunnendur og salan hlýtur því að dreifast á fleiri titla en oft. Af íslenskum ævisögum eru þeir Flosi og Hjálmar líklegastir til að seljast í sæmilegu upplagi og báðar bækurnar ágætar. Hvorug nær því þó að vera frábær og aukinheldur er Flosabókin einfaldlega endurútgáfa bókar sem kom út fyrir 27 árum. Af öðrum ævisögum sem gætu náð sæmilegri sölu má nefna Jón Bö, Gylfa Ægisson, Vigdísi og Jóni Leifs. Þá geta poppararnir Vilhjálmur, Papa-Jazz og Magnús Eiríksson allir ná sæmilegri sölu en engu flugi. En þetta var söluspá, næst ætla ég að blogga um það hvaða ævisögur eru bestar og hverjar eru ekki bestar.
Bloggar | Breytt 8.12.2009 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2009 | 13:14
Óþægar bækur og andvökur með Styrmi
Hjá bóksala eru bækur misjafnlega þægilegar. Sumar bara koma í sínum 10 eintökum í hilluna og eru þar og þarf ekki meira um þær að hugsa meðan aðrar eru alltaf uppseldar, hversu oft sem er pantað. Og svo þarf að kíkja í bækurnar og til þess eru langar nætur bóksalans.
Sumar eru ósköp þægilegar, maður grautar ofan í þeim hér og þar og fer snemma að sofa. Svo eru til þessar sem valda því að maður mætir geyspandi í bókabúðina næsta dag.
Styrmisbókin Umsátrið er af þeirri sortinni. Einstaklega lipurlega skrifuð og eiginlega spennandi eins og besti reifari. En þar með er ekki svo að ég skrifi undir allt í greiningum gamla Moggaritstjórans. Vonandi gefst mér tími til að kryfja þessa bók almennilega á nýju ári en núna get ég með góðri samvisku bent á hana sem vel gerða og fróðlega bók - þó að hún sé langt því frá að vera hlutlaus.
Bloggar | Breytt 29.11.2009 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.11.2009 | 22:10
Dauðinn, ástin og lífsnautnin
Dauðinn, ástin, lífsnautnin og leitin að tilganginum eru umfjöllunarefni í nýjustu bók Sölva Björns Sigurðssonar frá Selfossi. Bókin sem heitir Síðustu dagar móður minnar fjallar um ævintýraleg mæðgin sem halda út til Hollands á vit vonar og frelsis þegar móðirin greinist með ólæknandi krabbamein.
Í stað þess að samþykkja aflimanir í veikri von ákveður þessi miðaldra töffari að þrauka meðan stætt er en vill um leið hafa stjórn á atburðarásinni, jafnvel ráða yfir dauðanum. Einkasonurinn, veikgeðja og viðkvæm sál, gerir sitt besta til að styðja móður sína, gera henni síðustu dagana bærilega og tekur jafnvel að sér hjúskaparmiðlun sem skilar árangri á lokametrunum.
Sagan er hröð, fjörmikil og skrifuð af léttleikandi stílsnilld eins og fyrri bækur höfundar.
Bloggar | Breytt 21.11.2009 kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2009 | 15:39
Góði forsetinn og Ólafur Ragnar orðinn séra
Enn eitt jólabókabloggið:
Gerður Kristný er einn okkar besti barnabókarhöfundur og sendir nú frá sér aðra Bessastaðabókina, að þessu sinni bók um alvöru prinssessu sem heimsækir íslenska forsetann og lendir með honum í ótrúlegum ævintýrum í byggðum og óbyggðum. Við sögu komu bændur og búalið, kóngur og drottning, brúðgumi og brúður hans að ekki sé sleppt fálkaorðunni sem leikur hér stórt hlutverk.
Eins og hin ágæta bók Hallgríms Helgasonar um kossakonuna eru Bessastaðabækur Gerðar Kristnýjar fyrir alla aldurshópa. Aftan á bókinni er merking sem gefur vísbendingu um aldursbilið þar sem stendur inni í rauðum hring 6+. Og plúsinn er þar mikilvægur því sjálfur las ég þessa bók mér til meiri skemmtunar og uppbyggingar en margt í svokölluðum fullorðinsbókum.
Eitt af því sem hér vekur athygli er að í frábærum teikningum Halldórs Baldurssonar bera sögupersónurnar yfirleitt ekki svip af neinum þekktum andlitum,- utan einu sinni. Meira að segja forsetinn er svo venjulegur í útliti að hann gæti verið danskur. En þetta eina skipti er þegar sögulegu brúðkaupi í Vatnadal er lokið. Þá birtist presturinn á kirkjutröppunum og er þá enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson!
Hér er brugðið á skemmtilegan leik og sagan öll er full af skilaboðum, kannski ekki endilega hápólitískum enda er það svo leiðinlegt. En skilaboð eins og um samskipti forseta við alþýðuna og þeir sem vilja fara lengst í túlkunum geta velt fyrir sér samskiptum hænsna við lóur í túni Bessastaða. Semsagt tær frásögn og skemmtilegur boðskapur einkennir frásögn Gerðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2009 | 20:37
Alltaf sama sagan og magnað byrjendaverk! (Bókablogg III)
Fölsk nóta heitir spennusaga eftir Ragnar Jónasson þýðanda og lögfræðing í Reykjavík. Byrjendaverk höfundar sem er aðeins 33 ára gamall en hefur reyndar fengist við þýðingar á Agöthu Christie frá árinu 1994,- byrjaði semsagt sem þýðandi 18 ára gamall og bókin ber það með sér að höfundur hefur gott vald á rituðu máli. Það sem samt einkennir Ragnar sem spennusagnahöfund eru tök hans á spennunni. Ég er sjálfur í þeim hópi að ég legg spennusögur oft frá mér hálfkláraðar og les ekkert sérstaklega mikið af þeim. Bók Ragnars er aftur á móti svo einstaklega spennandi að ég á bágt með að ímynda mér að nokkur láti hana frá sér ókláraða.
Þar með er ekki sagt að verkið sé gallalaust. Persónusköpun mætti vera dýpri og kynni okkar af innra lífi persónanna meiri. Engu að síður get ég tekið undir með Ármanni Jakobssyni sem segir um þessa bók að hér kveði við nýjan tón í íslensku glæpasagnahljómsveitinni.
Ég hef gert mér að reglu að skrifa um tvær bækur í senn og ætla að halda þeim sið þó ég geri mér fulla grein fyrir að afmælisbók Þórarins Eldjárns eigi fullan rétt á að sérstakri bloggfærslu. Á hinn bóginn þolir frægð Þórarins og færni það betur en margt að ekki sé gætt allrar háttvísi hér á síðunni. Smásagnasafn höfundar sem kom út fyrir nokkrum vikum ber heitið Alltaf sama sagan og öfugt við það sem ætla mætti af heitinu þá er Þórarinn ekki alltaf að segja okkur sömu söguna eða samsorta sögur.
En sögurnar eiga það allar sameiginlegt að vera ljúfar, hnyttnar og sumar eins og hálfvegis göldróttar.
Ég gef ekki stjörnur en ef ég gerði það þá fengi Þórarinn að minnsta kosti einni stjörnu fleiri en Ragnar sem fengi alveg uppundir jafn margar stjörnur og Yrsa, ætti kannski að vera hálfri neðar en fengi þessa hálfu fyrir að þetta er byrjendaverk, já og svo af því að ég er nú að tala um Þórarinn en ekki Yrsu þá fengi Þórarinn allmargar stjörnur en ekki eins margar og á sínum bestu dögum eins og í löngu sögunum eða Disneyrímunum en það tengist að einhverju leyti þeirri sérvisku minni að lesa síður smásögur en lengri sögur og þannig ritdómari á nú eiginlega ekki skilið að fá margar stjörnur fyrir að skrifa ritdóma og hananú!
Bloggar | Breytt 29.10.2009 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2009 | 11:31
Aftur til Pompei og verðlaunabók af Bakkanum (Jólabókablogg III)
Það er gróska í unglingabókum og það er gott. Við Sunnlendingar að vonum svoldið montnir yfir að eiga verðlaunahöfundinn Guðmund Brynjólfsson á Eyrarbakka sem hlaut íslensku barnabókaverðlaunin fyrir "Þvílíka viku." Lipurlega skrifaður texti og sannfærandi fyrir óþekkt og þankagang nútíma unglinga. Hefði viljað lesa bók sem þessa meðan ég sjálfur átti unglinga og getað þá lagt betra mat á hversu vel höfundi tekst að komast inn í þankagang þessara undarlegu vera. En hafandi alið þá upp fjóra og ráma í margt sem ég les í bók Guðmundar held ég að hann sé vel að íslensku barnabókaverðlaununum kominn.
Annar verðlaunahöfundur sem hefur slegið í gegn síðustu tíu árin er svíinn Kim M. Kimselius sem sendi árið 1997 frá sér bókina Tillbakka till Pompeji. Elín Guðmundsdóttir þýðandi hjá Urði hefur nú snarað þessari fyrstu bók Kimseliusar og þess má geta að saman heimsækja þær, höfundur og þýðandi, Sunnlenska bókakaffið á miðvikudaginn kemur og verða um hádegisbil við upplestur og áritanir bóka.
Bloggar | Breytt 27.10.2009 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2009 | 22:37
Bókablogg II: Haukur á Röðli og Ljóðveldið
Ljóðveldið Ísland er reglulega áhugaverð ljóðabók. Hér er ortur bálkur um hvert ár lýðveldisins og einum betur, Svona innan úr árinu 2005:
...
"Er féð illa fengið"
spurði einhver
sjúkur útlendingur
af öfund
yfir húsunum, bönkunum
félögunum, verksmiðjunum...
...
Með trumbuslætti og básúnum
kvaddi slétthærður
gráhærður
sundurskorinn
Davíð utanríkið
og heilsaði
bankaríkinu svarta
á grösugum hólnum
Lítið eitt minni
en hæsta fjall
íslands sem
skrapp saman um
níu metra
af hreinni skömm ...
Í heild er þetta lifandi annáll þó að við getum stundum verið höfundi sammála og stundum ósammála.
Önnur bók sem ég ætla að geta hér í fúlustu alvöru er eftir Birgittu Halldórsdóttur og heitir einmitt Í fúlustu alvöru og Haukur á Röðli að yfirtitli. Hér er á ferðinni samtíma ævisaga sveitamanns í Húnaþingi, lipurlega skrifuð af höfundi sem á langa sögu að baki sem höfundur rómana og ástarævintýra en er hér í jarðbundnara verkefni og ræður vel við það.
Bloggar | Breytt 24.10.2009 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýjustu færslur
- Vinsælast; ljóð, húmor og lífstílsbækur
- Sumarlesningin mín
- Vinsælustu bækurnar
- Einstaklega vel heppnað útgáfuhóf
- Netbókabúðin netbokabud.is
- Mensalder á metsölulista
- 50% afsláttur á gömlum bókum
- Kanill í fyrsta sæti hjá Eymundsson
- Kanill verðlaunaður
- Kanill rýkur út!
- Opið alla daga!
- Viðtal við Sigríði Jónsdóttur
- Söluhæstu bækur ársins 2011
- Haustannáll (kvenkyns)bóksalans
- Topp 10! Frá 14. des. - 20. des
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Desember 2013
- Ágúst 2013
- Desember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
Bækurnar
- Góða ferð - handbók um útivist
- Hvítir hrafnar verð 28 þúsund
- SELD: Kvæði Eggerts frá 1832 á kr. 43 þúsund
- Austurland I.-VII á 25.000 kr.
- Náttúrufræðingurinn innbundinn á 60 þúsund
- Selt: Frumútgáfa á Svörtum fjöðrum Davíðs fyrir 24 þúsund
- Seld: Eftirmæli 18. aldar á 110 þúsund
- Sending abroad
- Sigurðar saga fóts
- Kvennafræðari Elínar Briem
- [ Fleiri fastar síður ]