Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

50% afsláttur á gömlum bókum

Í tilefni af Vor í Árborg er 50% afsláttur af öllum gömlum (notuðum) bókum í Sunnlenska bókakaffinu. Við erum fyrir með mjög lág verð og núna er það hreinlega geggjað. Um að gera að skreppa í kaffi, opið alla daga frá 12-18.

Tilboðið gildir frá því við opnum á hádegi á uppstigningardegi 17. maí til loka bæjarhátíðarinnar klukkan 18 næstkomandi sunnudag sem er 20. maí. (Gildir um allar bækur í hillunum á Austurvegi 22 og aðeins fyrir þá sem mæta á staðinn.)

Á sama tíma efnum við til ljóðasamkeppni þar sem yrkisefnið er bærinn okkar, Selfoss. Ljóðum ber að skila inn undir nafnleynd en í lokuðu umslagi sem fylgir skal koma fram rétt nafn höfundar. Í dómnefnd
ljóðasamkeppninnar eru þau Elín Gunnlaugsdóttir bóksali, Gylfi Þorkelsson og Jón Özur Snorrason sem báðir eru íslenskukennarar við FSu. Ljóðunum verður að skila í verslunina á vorhátíðinni eða í síðasta lagi 21. maí. Þeir sem mæta í verslunina geta fengið blað, skriffæri og umslag til þátttöku á staðnum.

Vegleg bókaverðlaun í boði.


Gyrðir og fleiri í kvöld

Gyðir Elíasson mun lesa úr þýðingum sínum í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld, fimmtudagskvöldið 17. nóvember. Skáldið tók nýlega við Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Auk hans mæta þau Óskar Árni Óskarsson, Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Sigríður Jónsdóttir. gyrdir_crop.jpg

Húsið verður að vanda opnað klukkan 20 og upplestur hefst skömmu síðar. Ókeypis og allir velkomnir.

Tvær bækur koma út á þessu ári í þýðingu Gyrðis, Tunglið braust inní húsið sem er safn ljóðaþýðinga og bókin Hvernig ég kynntist fiskunum eftir tékkneska skáldið Ota Pavel.

Óskar Árni Óskarsson les úr ljóðabók sinni Þrjár hendur, Bergþóra Snæbjörnsdóttir les úr nýrri ljóðabók sem nefnist Daloon dagar og að lokum kynnir Sigríður Jónsdóttir bók sína Kanil en hún kom út  fyrir skemmstu. B

Komið og kynnið ykkur það nýjasta í íslenskum skáldskap.


Helgidagaprédikanir Árna í Görðum

predikanir_arna_helgasonarHelgidaga Prédikanir Árið um kríng eftir séra Árna Helgason í Görðum. Viðeyjarprent frá 1839. Vel með farið eintak úr safni sr. Óskars J. Þorlákssonar dómprófasts. 852 síður, 8vo. Verð 25.000 kr.

Árni Helgason var frá Eyri í Skutilsfirði, fæddur þar 1877 og lést 1869. Hann var um tíma dómkirkjuprestur í Reykjavík og sat þá í Breiðholti en lengst bjó hann á Görðum á Álftanesi þar sem hann var prestur, prófastur og gengdi í forföllum bæði biskupsstörfum og sat á Alþingi. Árni var einn af aðalstofnendum Hins íslenska bókmenntafélags og forseti Reykjavíkurdeildar þess 1816-1848.

Bókina má kaupa hér https://secure.eshop.is/bokakaffid/varainfo.aspx?id=171134


Fimm ára afmæli bókakaffis

IMG_3346Sunnlenska bókakaffið fagnar fimm ára afmæli sínu á laugardaginn kemur með útgáfu tveggja nýrra bóka og sérstakri sýningu á fornbókum úr Hrappsey, Leirá, Hólum o.v. Dagskráin hefst klukkan tvö með kaffi og kleinum fyrir gesti og gangandi, allir velkomnir  meðan húsrúm leyfir.

Höfundarnir sem kynna nýjar bækur eru Gunnar Marel Hinriksson en bókaútgáfa okkar gefur út ljósmyndabók hans Selfoss sem er afar sérstætt átthagarit. Þá gefur bókaútgáfan Sæmundur út ljóðabók Sigríðar Jónsdóttur skáldbónda, Kanil sem fjallar um kynlíf frá sjónarhóli höfundarins.

(Myndin er tekin eftir jarðskjálftann 2008 en á laugardaginn verða flestar bækurnar í hillunum...)


Kona sem slegið er utan um

Í gömlum heimildum er stundum minnst á það fólk sem tók slíkt æði að okkar gamla og frumstæða samfélag kunni ekki önnur ráð en að slá utan um það. Hugtakið vísar til þess að slá saman spýtum í þesskonar fangelsi að hin óði geti ekki farið sjálfum sér né öðrum að voða. Fyrir okkur nútímafólki ber ber það vitaskuld vott um nokkurt miskunnarleysi og jafnvel grimmd að þessi fangelsi voru alla jafna ekki nema lítil búr, eins og kassi eða í besta falli lokrekkja.

Kristín Steinsdóttir rithöfundur hefur nú skrifað ljúfa og grimma sögu af ömmu sinni sem var svona kona sem afi höfundarins átti að lokum ekkert annað ráð gagnvart en að slá utan um hana búr uppi í baðstofunni. Og um leið og við kynnumst í skrifum Kristínar sárum harmi þessarar konu, grimmd samfélagsins gagnvart veikindum hennar og ljótleika fordómanna þá birtist okkur líka hin hliðin. Magnleysi aðstandenda hins veika, ást þeirra og þolgæði en líka uppgjöf og vonleysi gagnvart því sem ekki getur breyst. 

Maníuköst sögupersónunnar eiga sér hliðstæðu í ærandi kvensemi hreppstjórans föður hennar. Öll þekkjum við bókmenntir og úr henni veröld líka hvernig taumleysi alkóhólistans brýtur niður fjölskyldur, ást og allt sem er okkur einhvers virði í lífinu. Hér er drifkraftarnir aðrir en brennivínið en útkoman sú sama í magnaðri og vel skrifaðri bók. 


Klámfengin bók en góð

Dagur kvennanna eftir Megas og Þórunni

Þó svo að Dagur kvennanna eftir þau Megas og Þórunni Valdimarsdóttur fjalli sérstaklega um einn merkisdag í sögu þjóðarinnar er verkið ekki sagnfræði. Og gerir heldur ekki tilkall til þess. Í undirtitli segir að þetta sé ástarsaga. Sem orkar tvímælis. 250px-Megas_LMB1

Kannski er verkið nær því að vera sagnfræði en ástarróman, en þá sagnfræði hugmynda, ímynda og afmyndana. Hér fá kvenréttindaöfgar á lúðurinn og yfirdrepskapur hinna vammlausu. En bókin er engu að síður innlegg í umræðuna um jafnrétti og á sinn sérstaka og gróteska hátt frelsisrit konunnar, kynverunnar, karlpunganna og yfirleitt alla sem finna einhverja þörf fyrir að lifa af.

Orðfæri og stíll er kynngimagnaður. Fyrir þá sem hafa lesið Björn og Svein eftir Megas er sumt hér kunnuglegt en Dagur kvennanna er samt öll aðgengilegri, léttari og auðskiljanlegri. Bókin er vitaskuld klámfengin, jafnvel æsandi viðkvæmum og á köflum subbuleg en allur sá subbuskapur á sér tilverurétt í þessari áleitnu rómönsu.

Semsagt, alveg slatti mikið af stjörnum, svona eins og mærin Máney hin yndisfríða hefði nennt að rogast með á góðum degi upp í daunilla kompu Himinrjóðs...

Skemmtileg Laxdæla

Mér létti eiginlega að Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir rithöfundur er ekki orðin að reifarahöfundi. Því þó að blóð renni ómælt í nýjustu sögu hennar, Mörg eru ljónsins eyru, þá er sagan langt því frá að vera hefðbundinn krimmi. Hún er eitthvað miklu meira.

Hér lifnar Laxdæla fyrir okkur sem legið höfum í henni eitthvert skeið. En um leið er sagan skemmtileg og vel gerð lýsing á nútíma Íslendingum, eiginlega hrunbókmennt, svo mjög sem hún fylgir sögupersónunum eftir inn í síðustu ár vitleysunnar. Það er helst að einhver epísk óþolinmæði í mér væri stundum að horfa til þess að skáldið Þórunn hætti lýsingum sínum en sumar þeirra eru samt snilldarvel gerðar og áreiðanlega eru aðrir lesendur sem hefðu viljað gefa þeim meira rými.

Þórunni tekst þar á köflum að spinna og tvinna saman náttúrulýsingum og sálarlífi þannig að lesandinn hverfur með henni inn í stað, stund og vitundarlíf misgalinna nútímalegra Laxdæla.


Franskur byltingarandi á Sólbakka

anatole_francea.jpgUndanfarnin kvöld hefur verið hér í risinu á Sólbakka franskur byltingarandi meðan ég hesthúsaði dæmalaust góðri bók efir Nóbilverðlaunahafann Anatole France (1844-1924) Uppreisn englanna. Hún kom út hér á landi 1958 í góðri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar þó svo að prófarkalestur Helgafells hefði mátt vera betri.

Öllu róttækari og áhrifameiri verða bækur ekki en þessi skoplega og guðlausa saga af englum himnaríkis. Anatole var talinn mikill gáfumaður og róttækur en boðskapur eins og sá sem boðaður er í þessari einstöku bók átti þó meiri vinsældum að fagna meðal borgarastéttarinnar. 

Í dag hittir margt í gagnrýni hans og djúpri speki svo hnittilega í mark að  leitun er að öðru eins. Lokakaflinn þar sem byltingin fer út um þúfur er lærdómsríkur okkur sem nú horfum í ákveðnum vonbrigðum á gamla hjartahreina stjórnarandstæðinga í valdastólum.

 


SKÝRSLAN KEMUR 13:15

Sunnlenska bókakaffið fær fyrstu eintök af SKÝRSLUNNI klukkan 13:15 í
dag. Takmarkað upplag en meira vonandi næstu daga. Fyrstir koma fyrstir fá...

Góður er hann Gudeta

Náði mér í tvær bækur Eþjópiskra höfunda meðan ég var þar úti í vetur og lofaði þá að skrifa um bækur þessar þegar ég hefði komist í að lesa þær. Svo gleymast svona loforð en ég las bók Mulugta Gudeta, Evil days upp til agna og hafði mikla ánægju af.

Hér er ekki á ferðinni nein stórkostleg snilld, en ágætlega skrifuð skáldsaga sem opnar fyrir lesanda innsýn í sögu Eþjópíu, menningu og þankagang íbúanna. Sagan sem gerist á valdatíma kommúnistans Meginstu, lýsir vel þeirri grimmd sem ríkti á valdaskeiði hans og ríkir raunar víða um lönd þar sem með völd fara vondir menn.land_yellow_bull_deta.jpg

Hin Eþjópíska bókin sem ég náði í þarna úti er eftir Fikeremarkos Desta en bók hans heitir Land of the Yellow bull. Hún er á bókakápu skilgreind sem þjóðfræðileg skáldsaga, þar við mætti bæta við orðinu erótík því sagan snýst að mestu um kynlíf og ástarsenur. Hún liggur þar mjög á mörkum kláms og ástarvellu og fær ekki nema eina, nei annars hálfa stjörnu! Það er samt innanum fróðleikur í bókinni um lífshætti Hamarsfólksins í Eþjópíu en þar sem ég var fjarri þeim slóðum í reisu okkar Egils lét ég hana frá mér hálflesna og á tæpast von á að ég taki upp þráðinn.  

Þótti vænt um þegar ég bloggaði um þessa höfunda síðast þá kommenteraði meðal annarra íslensk kona, Agla að nafni, sem virtist kunna skil á báðum þessum mönnum. Kannski fæ ég meira að heyra frá henni núna. En, nei, Agla, ég komst ekki til þess að setja mig í samband við Gudeta. Kom einfaldlega það seint til Addis aftur að það var rétt tími til að taka sig saman fyrir flugið heim...


Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband