Leita í fréttum mbl.is

Seiðandi sögur í smásagnasafninu Doris Deyr

Ég var að ljúka við að lesa nýtt smásagnasafn eftir Kristínu Eiríksdóttur. Bókin kom út hjá JPV fyrr á þessu hausti og er fyrsta smásagnasafn höfundar en Kristín hefur áður gefið út þrjár ljóðbækur.

Það er ekki hægt að segja að lestur smásagnasafnsins fylli mann gleði og bjartsýni. Sögurnar eru flestar frekar óhuggulegar. Persónur sagnanna eru margar hverjar einmana, ráðvilltar og varnalausar gagnvart umheiminum.

Sögur Kristínar eru samtímasögur og er sögusvið þeirra oft Ísland en einnig gerast sumar þeirra erlendis, í Kanada, Kólombíu og Tyrkalandi. Kristín nær að fanga vel þann heim sem ungt fólk, flest á milli tvítugs og þrítugs, lifir í. Persónur sagnanna eru trúverðugar og Krístín notar ríkt ímyndunarafl sitt á skemmtilegan hátt þegar hún lýsir hinum mismunandi persónum. Sögurnar verða af þessum sökum mjög seiðandi og lesandinn verður forvitinn um afdrif hverrar sögupersónu. Sumar sögurnar dragast þó heldur á langinn.

Það er þó óhætt að mæla með bókinni. Hér er á ferðinni höfundur sem hefur heilmikið að segja og sögurnar vekja mann til umhugsunar um þann firrta en þó ekki alvonda heim sem við lifum í.

Elín Gunnlaugsdóttir


Afar vel gerð bók

Bók Bergsveins Birgissonar, Svar við bréfi Helgu er afar vel gerð og falleg bók. bcihfifjfd.jpg

Bergsveinn er enginn nýgræðingur en fyrri bækur hans hafa ekki gripið mig líkt og þessi. Hér er á ferðinni nærfærin lýsing á íslenskum sveitamanni, falleg en samt mjög líkamleg lýsing á ástinni en það er mikill vandi að láta þetta fara saman og að síðustu, frábær sagnaskemmtun.

Það aðeins angraði mig þegar ég sá í annað sinn sögu sem var eiginlega afrituð úr Einræðum Steinólfs í Fagradal, sú bók er einfaldlega of ung til að vera notuð svo skverlega. En ég komst langt með að fyrirgefa höfundinum þessa yfirsjón þegar ég las þakkir aftast þar sem hann vísar til Steinólfs sem heimildamanns.

Tungutak og orðaforði er með miklum ágætum og stíll mjög nálægt því að vera fimm stjörnu.

-b

Árni Matthíasson (arnim@mbl.is) skrifar um Sigurð fót og aðra brakúna

Í orðanna hljóðan, sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. nóv. 2010, skrifar Árni Matthíasson um bækur sem tengjast hruninu og segir þar um Sigurðar sögu fóts:

Ævintýrasagan Sigurðar saga fóts eftir Bjarna Harðarson segir ekki bara sögu hrunsins heldur sögu uppsveiflunnar líka, þess hvernig íslenskir viðskiptamenn fyrri tíma, sem voru ekki síður ævintýramenn, ólu upp kynslóð brakúna sem kunna fátt annað en að skulda og urðu líka heimsmethafar í þeirri iðju.
Líkt og í bók Óttars (M. Norðfjörð, Áttablaðarósinni) finnst manni sem maður þekki annan hvern mann, sem fígúrur úr viðskipta- og stjórnmálalífinu lifni við á síðunum, hálfu geggjaðri og mun skemmtilegri.
Miðað við hefðbundna greiningu á sorgarviðbrögðum erum við búin með doðann og afneitunina og á leið út úr reiðinni og inn í þunglyndið. Lokaskrefið er svo sáttin, sem kemur kannski þegar við höfum öll flust í afskekktan dal austur í Asíu og ræktum þar garðinn okkar í sátt við allt og alla líkt og Sigurður fótur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband