Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mest selda bókin!

Það er viðeigandi að mest selda bókin á tímabilinu 17. - 23. nóvember sé Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Annars lítur listinn svona út:

1) Stjórnarskrá lýðveldisins Ísland - Útg. Iðunn
2) Sigurðar saga fóts Höf. Bjarni Harðarson - Útg. Sæmundur
3) Sumarlandið Höf. Guðmundur Kristinsson - Útg. Árnesútgáfan
4) Gunnar Thoroddsen - ævisaga - Höf. Guðni Th. Jóhannesson - Útg. JPV
5) Eyjafjallajökull - Höf. Ari Trausti Guðmundss.&Ragnar Sigurðrss. - Útg. Uppheimar


Kona sem slegið er utan um

Í gömlum heimildum er stundum minnst á það fólk sem tók slíkt æði að okkar gamla og frumstæða samfélag kunni ekki önnur ráð en að slá utan um það. Hugtakið vísar til þess að slá saman spýtum í þesskonar fangelsi að hin óði geti ekki farið sjálfum sér né öðrum að voða. Fyrir okkur nútímafólki ber ber það vitaskuld vott um nokkurt miskunnarleysi og jafnvel grimmd að þessi fangelsi voru alla jafna ekki nema lítil búr, eins og kassi eða í besta falli lokrekkja.

Kristín Steinsdóttir rithöfundur hefur nú skrifað ljúfa og grimma sögu af ömmu sinni sem var svona kona sem afi höfundarins átti að lokum ekkert annað ráð gagnvart en að slá utan um hana búr uppi í baðstofunni. Og um leið og við kynnumst í skrifum Kristínar sárum harmi þessarar konu, grimmd samfélagsins gagnvart veikindum hennar og ljótleika fordómanna þá birtist okkur líka hin hliðin. Magnleysi aðstandenda hins veika, ást þeirra og þolgæði en líka uppgjöf og vonleysi gagnvart því sem ekki getur breyst. 

Maníuköst sögupersónunnar eiga sér hliðstæðu í ærandi kvensemi hreppstjórans föður hennar. Öll þekkjum við bókmenntir og úr henni veröld líka hvernig taumleysi alkóhólistans brýtur niður fjölskyldur, ást og allt sem er okkur einhvers virði í lífinu. Hér er drifkraftarnir aðrir en brennivínið en útkoman sú sama í magnaðri og vel skrifaðri bók. 


Klámfengin bók en góð

Dagur kvennanna eftir Megas og Þórunni

Þó svo að Dagur kvennanna eftir þau Megas og Þórunni Valdimarsdóttur fjalli sérstaklega um einn merkisdag í sögu þjóðarinnar er verkið ekki sagnfræði. Og gerir heldur ekki tilkall til þess. Í undirtitli segir að þetta sé ástarsaga. Sem orkar tvímælis. 250px-Megas_LMB1

Kannski er verkið nær því að vera sagnfræði en ástarróman, en þá sagnfræði hugmynda, ímynda og afmyndana. Hér fá kvenréttindaöfgar á lúðurinn og yfirdrepskapur hinna vammlausu. En bókin er engu að síður innlegg í umræðuna um jafnrétti og á sinn sérstaka og gróteska hátt frelsisrit konunnar, kynverunnar, karlpunganna og yfirleitt alla sem finna einhverja þörf fyrir að lifa af.

Orðfæri og stíll er kynngimagnaður. Fyrir þá sem hafa lesið Björn og Svein eftir Megas er sumt hér kunnuglegt en Dagur kvennanna er samt öll aðgengilegri, léttari og auðskiljanlegri. Bókin er vitaskuld klámfengin, jafnvel æsandi viðkvæmum og á köflum subbuleg en allur sá subbuskapur á sér tilverurétt í þessari áleitnu rómönsu.

Semsagt, alveg slatti mikið af stjörnum, svona eins og mærin Máney hin yndisfríða hefði nennt að rogast með á góðum degi upp í daunilla kompu Himinrjóðs...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband