Leita í fréttum mbl.is

Amtmaðurinn sem kallast á við nútímann

amtmadurinnBurtséð frá ágæti bóka þá eiga þær mismikið erindi við okkur og einhvernveginn ekkert sjálfgefið að raunasaga af norðlenskum amtmanni á fyrri hluta 19. aldar eigi mikið erindi við okkur börn 21. aldarinnar. En samt er það einmitt þannig.

Bók þessi, Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarbort er snilldarlega vel gerð bók og læsileg. Kannski ekki skemmtileg í þeim skilningi að vekja oft hlátur, enda saga Gríms mikil raunasaga en sagan er afar grípandi. Meðferð heimilda einkennist af vandvirkni án þess þó að hin fræðilega hlið beri efnið ofurliði.

En það dýrmætasta við bókina er samt að hún á mikið erindi við okkur í dag. Hér er sagt frá raunum þeirra manna sem veltu fyrir sér sjálfræði Íslands, möguleikum þess og erfiðleikum á tímum þegar fáir trúðu að Ísland gæti staðið á eigin fótum. Sagan gerist að mestu áður en áhrifa Jóns Sigurðssonar fór að gæta og hér kynnumst við ótrúlegu flækjustigi umræðunnar um sjálfstæði landsins. Einmitt þetta flækjustig á erindi við okkur í dag þegar reynt er að gera hugtakið fullveldi að einhverju óskiljanlegu og hanga á orðhengilshætti þegar talað er um sjálfstæði landsins.

Örlög Gríms, þrátt fyrir þjóðhollustu, verða líka þau að verða að skotspæni þeirra manna sem vildu mótmæla og mótmæltu þá næsta handahófskennt. Gerðu hróp að dómkirkjupresti, rektor og loks amtmanni enda landið undir erlendri stjórn og því erfitt um vik að gera hróp að hinum raunverulegu valdhöfum. Í dag er mikill áhugi á mótmælum og við mótmælendur þessa lands að því leyti til betur settir að geta mótmælt raunverulegum valdhöfum þó sumir vilji þar fara húsavillt líkt og landar okkar fyrir hálfri annarri öld.


Göldróttur sunnudagur

baldur-6Galdramenn heiðra Sunnlenska bókakaffið sunnudaginn 21. desember og kynna um leið göldrum prýdda bók, Töfrum líkast sem er ævisaga Baldurs Brjánssonar. Bókarhöfundurinn Gunnar Sigurjónsson hefur í tilefni af komu sinni á Selfoss bruggað galdur sem er sérstaklega saminn með sunnlenska Framsóknarþingmenn í huga og verður hann frumsýndur í Bókakaffinu af þessu tilefni. Uppákoman hefst klukkan 15 en Sunnlenska bókakaffið er opið þennan dag frá klukkan 12 - 22.


Stórvirki af Skeiðunum og snilld Guðbergs

Þó fjöldi sunnlenskra bóka í ár svari ekki að öllu leyti til íbúafjölda á Suðurlandi er eitt mesta stórvirki þessara jóla komið hér af Suðurlandi og það úr hjarta landbúnaðarsveitanna, frá Jóni Eiríkssyni bónda í Vorsabæ á Skeiðum, Jarðabók Skeiðahrepps. jardabok

Bókin er nú loksins komin í sölu í Sunnlenska bókakaffinu og kostar litlar 14.990 en er þó miðað við þyngd ein ódýrasta bók hússins. Bók þessi er prentuð á Indlandi og vegna aðstæðna á þessu hausti dróst að hún kæmist í skip. Um tíma var óttast að Sómalskir skæruliðar kynnu að ná kjörgrip þessum á sitt vald og örugglega gert sér mat úr. En úr öllum hættum var verki þessu borgið og komst á Reykvískan hafnarbakka fyrir þremur dögum og samdægurs hingað austur. Og við erum hér að tala um  bók sem unnið hefur verið að í sex áratugi...

Jón hefur frá því snemma á fimmta áratug tuttugustu aldar fengist við söfnun og skráningu örnefna í sinni heimasveit. Mun óhætt að fullyrða að fáar sveitir á Íslandi hafa í þessum efnum notið eins mikillar natni. Nú kemur þetta æviverk Jóns út á bók sem er stór bók og  í  stóru broti og er öll hinn mesti kjörgripur. Hér að finna litprentaðar loftmyndir  af gudberguröllum jörðum sveitarinnar ásamt örnefnaskýrslum þar sem fjallað er um hvert örnefni. Ennfremur gerir höfundur grein fyrir helstu þjóðleiðum um Skeið og nálægar sveitir á liðnum öldum, rakin saga Skeiðahrepps á 20. öld og í bókarbyrjun er almenn sveitarlýsing. Með hverri jörð er getið ábúenda allra jarða allt frá árinu 1703 og sagt frá breytingum á búskaparháttum síðustu 100 ára í máli og myndum.

En þegar hugurinn þreytist á að þræða sig eftir fornum þjóðleiðum og örnefnasögum Skeiða og Flóa er góð tilbreyting að lesa Guðberg Bergsson sem eins og fyrri daginn kemur lesendum sínum á óvart. Nú með barnabók sem er samt ekki við hæfi barna, en um leið uppeldisbók sem ég er ekki viss um að sé við hæfi kennara eða foreldra - en er samt bók sem á samt erindi við okkur öll. Börnin í tossabekk leggja hér í mikið ferðalag hugmynda, fordóma, sleggjudóma og hitta fyrir sinn eigin ótta, hugaróra og fíflsku í bráðskemmtilegri ferðasögu um þessa og annars heims kjallaraherbergi skólans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband