Leita í fréttum mbl.is

Frábær allegoría og mögnuð stríðsárabók (Bókablogg IV)

Það er með nokkru hiki að ég held áfram að blogga um bækur. Rétt eftir að ég skrifaði frekar lofsamlega um Falska nótu Ragnars Jónassonar í vikunni sátu þau í sjónvarpinu Kolla og Páll Baldvin og rökkuðu sömu bók niður af slíkum ofsa að  annað eins hefur líklega ekki sést síðan Arnaldur gaf út sína fyrstu bók. Að vísu ekki leiðum að líkjast fyrir sakamálahöfund og vonandi að hinn ungi höfundur láti ekki slá sig útaf laginu. Sjálfur sá ég ekki Kiljuþáttinn fyrr en daginn eftir og var því fráleitt að skrifast á við þáttakorn þetta.

folsknota.jpg

Ungir rithöfundar eru vitaskuld það mikilvægasta og þessvegna er rétt að fagna því hvað við eigum þar marga efnilega. Einn þessara er Óttar Norðfjörð sem sýndi góða byrjunartakta í Hníf Abrahams án þess að þar væri nein snilld á ferðinni. Nú sendir Óttar frá sér bókina Paradísarborg sem er snilldarleg allegóría um íslenskt samfélag og íslenska hrunið en um leið svo margt annað. paradisarborgin.jpg

Bókarhöfundur spilar hér á svipaðar nótur og þeir meistararnir Brecht í Brennuvörgunum  og Ionesco í Nashyrningunum. Ég fæ mig ekki til að segja of mikið frá söguþræðinum, það er ljótt gagnvart þeim sem eiga eftir að lesa en lýsingar á kassalaga stjórnmálamönnum með hrokafulla sérfræðinga sér við hlið að réttlæta hrun og eyðileggingu hitta í mark. Sefjunin, lygin, örvæntingin og okkar eilífa undanlátssemi.

dottir_maedra_minna.jpgÞriðji ungi höfundurinn sem hér verður nefndur er Sindri Freysson (hann er enn undir fertugu, Óttar er held ég varla þrítugur og Ragnar rétt kominn á fertugsaldur).  Sindri sendir frá sér seiðmagnaða sögulega skáldsögu, Dóttir mæðra minna, sem er af örlögum nokkurra ísfirskra kvenna á stríðsárunum. Mig skortir heimildir um það að hve miklu leyti saga Sindra er sannsöguleg en hún er fyrst og fremst mögnuð lýsing á fólki, barattu þess og örlögum. Hnausþykkur doðrantur og hverrar blaðsíðu virði.

(Eftir þennan lestur kunna einhverjir að spyrja hvort ég telji einfaldlega allar bækur góðar, en það er fráleitt svo og meirihluta þeirra bóka sem ég byrja á legg ég frá mér hálflesnar. En ég er bóksali og kýs hér að fara þá leið að blogga síður um bækur sem mér líkar afleitlega við)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nashyrningarnir eru eftir rúmenska höfundinn Eugen Ionescu!

Gunnar Benediktsson (IP-tala skráð) 1.11.2009 kl. 12:36

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sindri byggir á sögulegum atburðum, sem ég kannast við, enda tengjast þeir að einhverju leyti mínu fólki. Sindri hefur m.a. gert sér mat úr dagbókum ömmu minnar. 

Ég hef ekki lesið þessa bók, en reikna með að hún falli undir að vera söguleg skáldsaga eins og bók hans flóttinn, sem byggir á sömu atburðum. Í þeirri bók er amma m.a. ein persónanna, þótt mér finnist hann gefa talsvert ranga mynd af henni. Hún var mikill húmoristi og kvenhetja og sjálfstæð manneskja, sem geislaði af sér ástúð í öllu, sem hún sagði og gerði. Sindri gerir hana að hálfgerðri frenju. 

Kjarni þessara sagna er sóttur í flótta kornungs þjóðverja undan bretum. Hann hafði ekkert annað til saka unnið en að vera staddur hér, þegar stríðið braust út. Amma skaut yfir hann skjólshúsi í sumarbústað og lék hann við föður minn og kenndi honum Mullersæfingar m.a. (til mynd af því). Þessi piltur var kallaður Sandy og eru til myndir af honum frá þessum tíma, með fólkinu mínu.

Þetta er jafnvel enn viðkvæmt mál að tala um, því ávirðingarnar voru miklar og orsökuðu þessar fjöldahandtökur. Hús ömmu og afa var umkringt sandpokavirkjum og allir voru yfirheyrðir, en fyrir einhverja mildi slapp amma við handtölku.  

Sandy var handtekinn og fluttur í fangabúðir, en var svo látinn laus eftir stríð. Hann starfaði síðar sem barnakennari í þýskalandi, en er dáinn núna að ég held.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2009 kl. 12:43

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ionescu var súrrealisti.  Margir hafa þó lesið mikla ádeilu út úr honum. Mér sýnist á öllu að Óttar sé að feta í fótspor Benedikts Gröndal og Heljarslóðarorrustunnar, án þess þó að ég hafi lesið þessa bók.  Það væri allavega gleðileg tilbreyting frá sauðalitarealismanum í íslenskum bókmenntum.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2009 kl. 13:23

4 Smámynd: Bjarni Harðarson

Takk fyrir ábendinguna útaf nafni Ionescu sem ég fór klaufalega rangt með en hefur verið lagað. Ég hef alltaf talið utan efa að karlinn sá væri að skrifa um nasismann en er alls ekki sérfróður um það mál! 

Bjarni Harðarson, 1.11.2009 kl. 18:44

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Laxness var afar hrifinn af Ionescu og er ekki erfitt að ímynda sér að Strompleikurinn hafi verið undir sterkum áhrifum hans.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2009 kl. 08:44

6 identicon

Mig langar að byrja á að þakka Bjarna hlýleg orð í garð Dóttur mæðra minna, sem hefur verið að fá afbragðs viðtökur og ekki annað hægt en að vera þakklátur. Hins vegar skrifa ég þessar línur vegna athugasemdar Jóns Steinars um Flóttann. Ég hirði sjaldnast um að taka þátt í umræðum um efni bóka minna en í þessu tilviki gegnir öðru máli, því að Jón Steinar virðist telja mig sýna ömmu hans í neikvæðu ljósi, en því hafna ég alfarið og þyki leitt ef sú ranghugmynd er á kreiki. Í fyrsta lagi verður ekki áréttað nógu oft að Flóttinn er skáldsaga, jafnvel þó svo að sumir atburðir hennar og persónur eigi sér hliðstæður í veruleikanum. Persónusköpunin er því alfarið háð hugarflugi höfundar, ekki trúnaði við lifandi persónur eða látnar. Að því sögðu vil ég rifja upp að persóna sú sem Jón Steinar heimfærir upp á ömmu sína og segir mig lýsa sem "frenju" fær þvert á móti afar vinsamlega umfjöllun í Flóttanum. Steingerður heitir hún og er fyrst kynnt til sögunnar sem kona sem "fáir standa á sporði þegar erfið vandamál þörfnuðust úrlausnar". Næst þegar hún er nefnd er hún sögð "málglöð og kát í bragði."

Sindri Freysson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 19:29

7 identicon

Aðrar lýsingar á umræddri persónu eru af svipuðum toga, henni er lýst sem umhyggjusamri móður og yfirgefur söguna þegar hún kveður flóttamanninn með "hlýju faðmlagi og þurrkaði sér síðan um augun með svuntuhorninu." Þá ber að geta þess að því miður frétti ég ekki af né fékk í hendur dagbók ömmu Jóns Steinars fyrr en talsvert eftir að Flóttinn kom út, svo seint sem 2006 minnir mig, en Flóttinn kom út árið 2004. Ég gat því ekki byggt neitt í bókinni á skrifum hennar. Það er hins vegar rétt hjá Jóni Steinari að öll þessi mál, þ.e. mál þýska flóttamannsins og síðar meir handtökur sem af því leiddu, hafa verið mikið feimnismál fyrir vestan alla tíð. Og því var ekki seinna vænna en að rjúfa þögnina um þau mál, sem og ég hef gert í skrifum mínum. Varðandi Sandy, þ.e. August Lehrmann, get ég upplýst að hann fór til Þýskalands í fangaskiptum haustið 1943. Hann fékkst við viðskipti mestanpart ævinnar og lést í Essen 1994. Ég hvet síðan sem flesta til að lesa Flóttann. Já, og auðvitað Dóttur mæðra minna - sem sömuleiðis er skáldsaga sem daðrar stundum við atburði úr veruleikanum.

Sindri Freysson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 19:39

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sæll Sindri. Þetta var nú ekki sett fram í neinni kergju hjá mér. Þvert á móti. Ég las Flóttann með mikilli ánægju og ég vissi að þú fékkst ekki dagbækurnar í hendur fyrr en síðar. Ég las hana líka sem skáldsögu, en þar sem ég hef ákveðin tengsl til efniviðarins, þá bar ég mína mynd ósjálfrátt saman við þá sem í bókinni birtist. Það er ósanngjart af mér að kalla persónuna frenju, en það gerði ég í fljótræði til að undirstrika þann mun, sem ég gerði mér í hugarlund.

Ég vona alls ekki að þú takir þessu sem neikvæðu umtali um bókina. Þetta er fantagóð bók, sem ég mæli sterklega meðog þyki ég nú ekki alltaf mjúkmáll í dómum um Íslenskar bókmenntir.

Ég ber virðingu fyrir því að þú skulir hafa fjallað um þessi mál og opnað á þau, því mér fannst alltaf undarlegt hvað fólk var feimið við þetta mál, svona löngu síðar.  Ég sá meira að segja efni í þessu í kvikmynd á ínum tíma, en það var nú ekki sértstaklega hugnanlegt mínu fólki.Allavega veit ég að það eru afar skiptar skoðanir um málið.  Hryllingur stríðsáranna vex ekki úr fólki, virðist vera og tortryggnin tekur sér varanlega bólfestu.

Ég vissi um skjöl varðandi eftirmálann, sem lýsa því hvað gekk á undir yfirborðinu. Yfirheyrslur og fleira, sem ég reikna með að þú hafir þefað uppi. Þetta setti mark sitt á litla bæjarfélagið mitt um langa tíð, þótt ég hafi í raun aldrei skilið hversu djúp alvara var í þessu öllu. Sandy var enginn Nasisti. Þetta var rétt um tvítugur strákur á röngum stað á röngum tíma. Gerði aldrei nokkrum manni mein. 

Ég stóð alltaf í þeirri meiningu að hann hafi gerst kennari. Það kann þó að hafa verið einhverja skamma hríð. 

Allavega þá er kannski loks komið nægilegt loft um þetta til að gera um það kvikmynd. Þökk sé þér. Ég virði þig mikils fyrir það.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2009 kl. 19:58

9 identicon

Ég tek, Jón Steinar, undir mat þitt á fóttamanninum þýska, og er þess fullviss að Vestfirðingarnir sem réttu honum hjálparhönd hafi gert það af engum hvötum öðrum en hjálpfýsi og góðmennsku - þó svo að Bretar hafi í bálkesti stríðsins túlkað gjörðir þeirra á hinn versta veg. Refsingin sem hjálparhellurnar fengu var út úr öllu korti, ef svo má segja. Dóttir mæðra minna rekur m.a. dramatíska píslarför af því tagi sem Vestfirðingarnir þurftu að þola fyrir hjálpsemi sína. Ég átti mjög gott samstarf við fjölskyldu þína við ritun Flóttans, bæði föður og föðurbróður, og á henni þakkarskuld að gjalda, sem ég vona að bókin hafi a.m.k. að hluta greitt. Þetta var saga sem þurfti að segja. Ég er sömuleiðis sammála þér um að þessi saga öll hentar geisivel til kvikmyndunar og get upplýst hér að margháttaðar bollaleggingar og þreifingar um slíkt hafa verið í gangi. Þau mál eru í vinnslu. Tíminn leiðir síðan í ljós hvort að þessi atburðamikla örlagasaga Vestfirðinganna rati á hvíta tjaldið. Þá býð ég þér upp á popp og kók  - og það er loforð!

Sindri Freysson (IP-tala skráð) 2.11.2009 kl. 20:37

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski ég leggist í handrit með þér. Hef eitthvað komið nálægt því.

Allavega verður spennandi að sjá hvort af þessu verður. Þetta er verðug saga, með lifandi persónum og sterkri sympatíu. Ég hef annars starfað í þessum bíóbransa í 20 ár og hef séð marga góða hugmyndina víkja fyrir verri íöllum nepótismanum, sem ríkir í listageiranum yfirleytt.

Ég vona allavega sannarlega að af þessu verði.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.11.2009 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband