Færsluflokkur: Menning og listir
7.1.2009 | 23:25
Metsölubækur ársins 2008
Það má segja að ljóðið hafi komið sterkt inn á árinu. Kvæðasafn Þórarins Eldjárn, ástarljóð Páls Ólafssonar og Kvæðasafn Steins Steinarrs eru meðal mest seldu bóka ársins í Sunnlenska bókakaffinu. Auk þess sem limrubók Hjálmars Freysteinssonar Heitar lummur seldist eins og heitar lummur!
Sú íslenska skáldsaga sem var hvað vinsælust á árinu er Ofsi eftir Einar Kárason og Myrká eftir Arnald Indriðason kemur næst á eftir. Af erlendum skáldsögum seldist best Friðþæging eftir Ian McEwan.
Bara gaman eftir Guðrúnu Helgadóttur og Fíasól er flottust eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur voru vinsælastar af barnabókunum.
Bækur um þjóðfélagsmál urðu mjög vinsælar eftir því sem leið á árið og skyldi engan undra. Bók Bjarna Harðarsonar Farsældar Frón var vinsælust af þeim bókum.
Af bókum sem tengjast þjóðfræði og héraðslýsingum þá var Jarðabók Skeiðahrepps eftir Jón Eiríksson í Vorsabæ vinsælust en bókin Íslensk þjóðfræði eftir Þórð í Skógum var einnig mikið keypt.
Þegar á heildina er litið var árið 2008 gott bókaár og við væntum góðs af árinu 2009.
Góðar stundir.
-eg
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2009 | 21:20
Ný og betri fornbókabúð
Nú um áramótin voru vistaskipti í fornbókabúðinni okkar og allar óseldu bækurnar frá síðasta ári fóru í orlof í kjallara bóksalans en nýjar komu í staðin. Búðin öll endurskipulögð og mikið af forvitnilegu efni.
Mikið úrval af fallegum ritsöfnum
Á þriðja hundrað ljóðabækur frá ýmsum tímum, raðað í stafrófsröð skálda
Mikið af nýju efni í Sunnlenska fræðaskápnum
Íslensk fræði, ættfræði, pólitík, barnabækur.
Úrval af innlendum og erlendum listaverkabókum.
Höfum sett upp tvær hillur með fágætum ritum og forvitnilegum smáritum. Þar má meðal annars finna eftirtalið, sjá hér... http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/entry/761408/
30.12.2008 | 23:10
Opnunartími um áramótin
Sunnlenska bókakaffið verður lokað á morgun gamlársdag og einnig á nýársdag. Við opnum svo aftur kl. 12 föstudaginn 2. janúar 2009.
Óskum öllum nær og fjær, til sjávar og sveita, gleðilegs árs og þökkum viðskiptin á árinu sem er að líða.
27.12.2008 | 12:43
Apakóngur lokar bókakaffi
Sunnlenska bókakaffið er lokað í dag, laugardaginn þriðja í jólum enda liggja bóksalarnir uppi í rúmi handan götu og lesa Apakónginn og aðrar gersemar jólabókaflóðsins.
Apakóngur á silkiveginum er eitt af stórvirkjum þessara jóla og í kaupbæti fallegasti prentgripurinn. Á jóladagsmorgun vaknaði einn bóksalanna í Sunnlenska bókakaffinu upp við afmælissöng og var síðan skenkt þessu fjallþunga sýnishorni kínverskrar frásagnarlistar.
Þetta eru alþýðubókmenntir og upphaflega til orðnar á tehúsum Han-þjóðarinnar. Hér segir af köppum og klækjarefum, pólitískum loddurum og allskonar illþýði. Það er kínafarinn Hjörleifur Sveinbjörnsson sem þýðir úr kínversku, velur efni og ritar merkan formála.
Þríríkjasaga er sú fyrsta og segir frá valdabaráttu við Langá þeirra Kínverja, blauðum ráðgjöfum og ráðsnjöllum herforingjum. Pólitískar senur í samræðum og ráðabruggi eru ekki síðri en við þekkjum í Sturlungu og brenndar því sama marki að hér grautast saman mikill skari höfðingja svo stundum er erfitt að greina hver er hvurs í þeim efnum. Enda heita kapparnir nöfnum sem renna svilítið saman eins og Lu Su, Lius Bei, Ci Meng, Cheng Pu, Zhou Dai, Lin Tong, Cheng Zi og ekki má gleyma erkiskálkinum Cao Cao.
Engu að síður renna þessar sögur frábærlega í lestri og víða má finna þráð milli þessara sagna og miðaldasagnaarfs okkar Íslendinga þó svo að allt sé hér heldur stærra í sniðum en við Flóabardaga og jafnvel Svoldarorusta verður hálfvegis afdalaleg í samanburðinum.
Sunnlenska bókakaffið opnar svo að afloknu jólafríi klukkan 12 á mánudag og verður eftirleiðis opið 12-18 virka daga en 12 - 16 á laugardögum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2008 | 22:12
Draugasaga fyrir táninga og tíræða
Ég var að ljúka við að lesa Garðinn eftir Gerði Kristnýju. Bókin er skrifuð fyrir unglinga en hún hélt mér fullorðinni manneskjunni alveg við efnið.
Sagan segir frá Eyju sem er 15 ára og er nýflutt ásamt foreldrum sínum í Vesturbæinn, nánar tiltekið á Ljósvallagötuna. Glugginn í nýja herberginu hennar Eyju snýr út í Hólavallakirkjugarð og má segja að sagan snúist í kringum hann og einn forlátan stól sem fjölskyldan festir kaup á.
Það sem mér finnst skemmtilegt við söguna er hvernig gamli og nýji tíminn kallast á, en segja má að sögusviðið sé Reykjavík í kringum 1918 og svo Reykjavík nútímans. Ungir Reykvíkingar fyrir 90 árum síðan sendu hvor öðrum sendibréf en Reykvísk ungmenni nútímans senda SMS og tölvupóst eins og allir vita. Samt hefur mannfólkið ekki breyst neitt svo mikið að öðru leyti. Ungar stúlkur urðu ástfangnar þá sem nú og fólk veiktist, sumt lífshættulega. Þannig stendur manneskjan að vissu leyti áfram í sömu sporunum þó umhverfi og lífhættir breytist.
Þetta er bók sem virkilega er hægt að mæla með hvort sem lesendurnir eru á táningsaldri eða tíræðir.
-eg
24.12.2008 | 10:56
Feit var hún Þorláksmessa...
Það kemur upp kaupmannseðli í bóksalafjölskyldunni á dögum eins og í gær. Sjálfur hefi ég þá sérvisku að rífa helst alls ekki strimilinn af kassanum allan daginn. Það er auðvitað brugðið útaf þessu ef einhver vill fá kvittun. Annars er reynt að öngla í að teygja megi strimilinn allaleið útað dyrum í lok dags. Tekst dag og dag, sérstaklega á aðventunni...
Í gær, á sjálfan Þollák var opið til 11 og þá náði ræman fjórfalt þangað og yngsti sonurinn stökk með alla súpuna í reiknivél rétt fyrir lokun í gærkvöldi. Niðurstaðan var 768.593 krónur eftir daginn. Það er næstum tveggja mánaða velta miðað við venjulegar vetrarvikur.
Skemmtilegast er þó hvað maður hittir marga, tekst að hjálpa mörgum við að velja jólagjöf handa ömmusystur þar og afabarninu hér. Ég þarf reyndar aðeins að taka mig á í barnabókalestri!
Auðvitað eru bækurnar hérna dýrar miðað við það sem gerist í stórmörkuðum. En við hverju er að búast. Sumir skulda 1000 milljarða og þurfa svo sem ekki að leggja á frekar en þeim sýnist. Skulda hlutfallslega miklu meira en okkur smákörlum í atvinnurekstri helst nokkru sinni uppi.
Það var auðvitað freystandi að leggja bara ekkert á bækurnar og fara svo bara í bankann á nýja árinu og segja úps og afsakið, þetta voru mistök. En við ákváðum að vera í jólaskapi og gera hlutina með gamla laginu...
En semsagt, gleðileg jól öll og kærar þakkir fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða.
-b.
22.12.2008 | 21:26
Lausavísur frá svartadauða til siðaskipta
Lausavísur frá svartadauða til siðaskipata er bók sem leynir á sér. Bókin kom út hjá Háskólaútgáfunni í fyrra og er ritstjóri hennar Guðrún Nordal. Bókinni er fylgt úr hlaði með vönduðum inngangi og svo fylgja skýringar með hverri vísu og sagt frá í hvaða handriti þær hafi fundist. Í bókinni er til dæmis þessi skemmtilega vísa sem eignuð er Ögmundi biskupi Pálssyni:
Sveitavísa
Grímsnes hið góða
og Gull-Hrepparnir
Sultar-Tungur
og svarti Flói
-eg
21.12.2008 | 17:40
Amtmaðurinn sem kallast á við nútímann
Burtséð frá ágæti bóka þá eiga þær mismikið erindi við okkur og einhvernveginn ekkert sjálfgefið að raunasaga af norðlenskum amtmanni á fyrri hluta 19. aldar eigi mikið erindi við okkur börn 21. aldarinnar. En samt er það einmitt þannig.
Bók þessi, Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarbort er snilldarlega vel gerð bók og læsileg. Kannski ekki skemmtileg í þeim skilningi að vekja oft hlátur, enda saga Gríms mikil raunasaga en sagan er afar grípandi. Meðferð heimilda einkennist af vandvirkni án þess þó að hin fræðilega hlið beri efnið ofurliði.
En það dýrmætasta við bókina er samt að hún á mikið erindi við okkur í dag. Hér er sagt frá raunum þeirra manna sem veltu fyrir sér sjálfræði Íslands, möguleikum þess og erfiðleikum á tímum þegar fáir trúðu að Ísland gæti staðið á eigin fótum. Sagan gerist að mestu áður en áhrifa Jóns Sigurðssonar fór að gæta og hér kynnumst við ótrúlegu flækjustigi umræðunnar um sjálfstæði landsins. Einmitt þetta flækjustig á erindi við okkur í dag þegar reynt er að gera hugtakið fullveldi að einhverju óskiljanlegu og hanga á orðhengilshætti þegar talað er um sjálfstæði landsins.
Örlög Gríms, þrátt fyrir þjóðhollustu, verða líka þau að verða að skotspæni þeirra manna sem vildu mótmæla og mótmæltu þá næsta handahófskennt. Gerðu hróp að dómkirkjupresti, rektor og loks amtmanni enda landið undir erlendri stjórn og því erfitt um vik að gera hróp að hinum raunverulegu valdhöfum. Í dag er mikill áhugi á mótmælum og við mótmælendur þessa lands að því leyti til betur settir að geta mótmælt raunverulegum valdhöfum þó sumir vilji þar fara húsavillt líkt og landar okkar fyrir hálfri annarri öld.
20.12.2008 | 12:34
Göldróttur sunnudagur
Galdramenn heiðra Sunnlenska bókakaffið sunnudaginn 21. desember og kynna um leið göldrum prýdda bók, Töfrum líkast sem er ævisaga Baldurs Brjánssonar. Bókarhöfundurinn Gunnar Sigurjónsson hefur í tilefni af komu sinni á Selfoss bruggað galdur sem er sérstaklega saminn með sunnlenska Framsóknarþingmenn í huga og verður hann frumsýndur í Bókakaffinu af þessu tilefni. Uppákoman hefst klukkan 15 en Sunnlenska bókakaffið er opið þennan dag frá klukkan 12 - 22.
19.12.2008 | 21:28
Stórvirki af Skeiðunum og snilld Guðbergs
Þó fjöldi sunnlenskra bóka í ár svari ekki að öllu leyti til íbúafjölda á Suðurlandi er eitt mesta stórvirki þessara jóla komið hér af Suðurlandi og það úr hjarta landbúnaðarsveitanna, frá Jóni Eiríkssyni bónda í Vorsabæ á Skeiðum, Jarðabók Skeiðahrepps.
Bókin er nú loksins komin í sölu í Sunnlenska bókakaffinu og kostar litlar 14.990 en er þó miðað við þyngd ein ódýrasta bók hússins. Bók þessi er prentuð á Indlandi og vegna aðstæðna á þessu hausti dróst að hún kæmist í skip. Um tíma var óttast að Sómalskir skæruliðar kynnu að ná kjörgrip þessum á sitt vald og örugglega gert sér mat úr. En úr öllum hættum var verki þessu borgið og komst á Reykvískan hafnarbakka fyrir þremur dögum og samdægurs hingað austur. Og við erum hér að tala um bók sem unnið hefur verið að í sex áratugi...
Jón hefur frá því snemma á fimmta áratug tuttugustu aldar fengist við söfnun og skráningu örnefna í sinni heimasveit. Mun óhætt að fullyrða að fáar sveitir á Íslandi hafa í þessum efnum notið eins mikillar natni. Nú kemur þetta æviverk Jóns út á bók sem er stór bók og í stóru broti og er öll hinn mesti kjörgripur. Hér að finna litprentaðar loftmyndir af öllum jörðum sveitarinnar ásamt örnefnaskýrslum þar sem fjallað er um hvert örnefni. Ennfremur gerir höfundur grein fyrir helstu þjóðleiðum um Skeið og nálægar sveitir á liðnum öldum, rakin saga Skeiðahrepps á 20. öld og í bókarbyrjun er almenn sveitarlýsing. Með hverri jörð er getið ábúenda allra jarða allt frá árinu 1703 og sagt frá breytingum á búskaparháttum síðustu 100 ára í máli og myndum.
En þegar hugurinn þreytist á að þræða sig eftir fornum þjóðleiðum og örnefnasögum Skeiða og Flóa er góð tilbreyting að lesa Guðberg Bergsson sem eins og fyrri daginn kemur lesendum sínum á óvart. Nú með barnabók sem er samt ekki við hæfi barna, en um leið uppeldisbók sem ég er ekki viss um að sé við hæfi kennara eða foreldra - en er samt bók sem á samt erindi við okkur öll. Börnin í tossabekk leggja hér í mikið ferðalag hugmynda, fordóma, sleggjudóma og hitta fyrir sinn eigin ótta, hugaróra og fíflsku í bráðskemmtilegri ferðasögu um þessa og annars heims kjallaraherbergi skólans.
Nýjustu færslur
- Vinsælast; ljóð, húmor og lífstílsbækur
- Sumarlesningin mín
- Vinsælustu bækurnar
- Einstaklega vel heppnað útgáfuhóf
- Netbókabúðin netbokabud.is
- Mensalder á metsölulista
- 50% afsláttur á gömlum bókum
- Kanill í fyrsta sæti hjá Eymundsson
- Kanill verðlaunaður
- Kanill rýkur út!
- Opið alla daga!
- Viðtal við Sigríði Jónsdóttur
- Söluhæstu bækur ársins 2011
- Haustannáll (kvenkyns)bóksalans
- Topp 10! Frá 14. des. - 20. des
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Desember 2013
- Ágúst 2013
- Desember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Maí 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
Bækurnar
- Góða ferð - handbók um útivist
- Hvítir hrafnar verð 28 þúsund
- SELD: Kvæði Eggerts frá 1832 á kr. 43 þúsund
- Austurland I.-VII á 25.000 kr.
- Náttúrufræðingurinn innbundinn á 60 þúsund
- Selt: Frumútgáfa á Svörtum fjöðrum Davíðs fyrir 24 þúsund
- Seld: Eftirmæli 18. aldar á 110 þúsund
- Sending abroad
- Sigurðar saga fóts
- Kvennafræðari Elínar Briem
- [ Fleiri fastar síður ]