Leita í fréttum mbl.is

Söluhæstu bækur ársins 2011

Það er alltaf gaman að spá í það sem selst best og mest. Metsölubók ársins 2011 hjá okkur er Sumarlandið skráð af Guðmundi Kristinssyni. Sunnlendingar virðast vera spenntir fyrir því hvernig menn hafa það eftir að þeir eru komnir yfir móðuna miklu.

Sú skáldsaga sem selst hefur best þetta árið er Gamlinginn eftir Svíann Jonas Jonasson. Bókin hefur varla stoppað í hillunum hjá okkur eftir að hafa fengið glimrandi dóma í Kiljunni í haust.

Vinsælustu ljóðabækur ársins eru Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur og Bréf til næturinnar eftir Kristínu Jónsdóttur.

Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson kom út síðsumars og hefur hann selst mjög vel. Þá hefur bókin Íslenskar lækningajurtir eftir Önnu Rósu Róbertsdóttur verið vinsæl hjá okkur og útivistarbókin Góða ferð eftir Helen Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur sömuleiðis.

Hávamál endurort af Þórarni Eldjárn og myndskreytt af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur tróna efst á listanum yfir söluhæstu barnabækurnar og ævisaga Sigurðar dýralæknis var vinsælasta bókin í flokki ævisagna.

Af þessu má sjá að það eru Sunnlendingar ( Guðmundur, Sigríður, Jóhann Óli, Anna Rósa, Elín og Sigurður ) sem hafa vinningin í sölunni hjá okkur og langar mig að bæta einum við sem seldi líka vel en það er höfundur Selfossbókarinnar, Gunnar Marel Hinriksson. Selfyssingar hafa tekið bókinni vel og það er kannski ekkert skrýtið því hún sýnir bæinn þeirra í nýju og skemmtilegu ljósi.

Við þökkum svo viðskiptin á árinu sem er að líða. Megi árið sem nú fer í hönd færa ykkur öllum farsæld og frið.

-eg


Haustannáll (kvenkyns)bóksalans

Þetta verður ekki stjörnum prýddur annáll. Heldur aðeins umfjöllun um þær bækur sem bóksalinn hefur haft á náttborðinu á þessu hausti. Framan af hausti voru það einkum ljóðabækur sem voru á borðinu og er þar minnisstæðust ljóðabókin Skrælingjasýningin eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Þau eru skemmtilega hispurslaus ljóðin hennar Kristínar Svövu.

Það var svo um og uppúr 1. nóvember sem lestur hófs fyrir alvöru, en þá var Einvígið eftir Arnald Indriðason lesið. Þetta er fínasta bók eftir Arnald. Plottið var kannski ekki svo merkilegt en hliðarsagan um æsku Marions lögreglumanns er falleg og kannski ætti Arnaldur bara að hætta að hugsa um sölutölur og fara að skrifa fagurbókmenntir.

Næst á eftir Einvíginu las ég Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Bókin gerist á tveimur mínútum eða svo. Hún er safn sextán sagna sem allar gerast á sama tíma. Á þessum tíma rifjast þó margt upp fyrir sögupersónunum þannig að vitanlega er farið fram og aftur í tíma. Af þeim sögum sem mér fannst standa uppúr í þessum sagnasveig er saga prestins. Lestur bókarinnar var annars ljúfur.

Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Selfyssingin Sölva B. Sigurðsson voru næst á dagskrá hjá mér. Bókin fjallar um prestinn Björn í Sauðlauksdal og hans vinnuhjú, en mestan hluta bókarinnar eru þau að undirbúa mikla jólaveislu sem vera á í Sauðlauksdal. Sögusvið bókarinnar er ofanverð átjánda öldin og finnst mér Sölva takast einkar vel upp að lýsa tíðarandanum. Málfar bókarinnar er fornt og hæfir vel efni bókarinnar. Þetta er bók sem óhætt er að mæla með.

Í fyrstu hélt ég að bókin Hvernig ég kynntist fiskunum eftir Tékkann Ota Pavel fjallaði aðallega um stangveiði, en þessi litla og fallega bók fjallar um svo margt annað. Hún fjallar um lífið og um fólk sem hefur ótrúlega seiglu og kjark. Persónur bókarinnar eru líka einkar eftirminnilegar. Frábær bók í fallegri þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Um jólin lauk ég við að lesa bókina Meðan enn er glóð eftir norska rithöfundinn Gaute Heivoll. Bókin er mjög góð. Kannski pínulítið endurtekingarsöm. Bókin fjallar um brennuvarginn Dag og um uppvöxt höfundar bókarinnar, Gaute. Það eru ótrúleg líkindi með þeim báðum þó að það rætist betur úr lífi Gaute en Dags. Það staðfestist í þessari bók að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki. Kannski ekki beint bók sem gott er að lesa um leið og konfektið er etið en engu að síður holl lesning.

Sem stendur liggur bókin Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur á náttborðinu. Ég er enn ekki komin nógu langt til að segja hvernig mér líkar hún. Væntanlega verður fjallað um hana í vorannálnum!

Elín Gunnlaugsdóttir, bóksali


Topp 10! Frá 14. des. - 20. des

Metsölulistinn frá 14. des. - 20. des.

1. Hollráð Hugos - Höf. Hugo Þórisson - Útg. Salka (ný)
2. Kanill - Sigríður Jónsdóttir - Útg. Sæmundur (5)
3. Selfoss - Höf. Gunnar Marel Hinriksson - Útg. Sæmundur (2)
4. Sigurður dýralæknir - Höf. Gunnar Finnsson - Útg. Hólar (ai)
5. Þúsund og ein þjóðleið - Höf. Jónas Kristjánsson - Útg. Sögur (ai)
6. Gamlinginn - Jonas Jonasson - Útg. JPV (ai)
7. Bláklukkur - Guðrún Valdimarsdóttir - Útg. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi (4)
8. Sómamenn of fleira fólk - Höf. Bragi Kristjónsson - Útg. Sögur (ný)
9. Málverkið - Ólafur Jóhann Ólafsson - Útg. Vaka-Helgafell (1)
10. Brakið - Yrsa Sigurðardóttir - útg. Veröld (ný)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband