Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Söluhæstu bækur ársins 2011

Það er alltaf gaman að spá í það sem selst best og mest. Metsölubók ársins 2011 hjá okkur er Sumarlandið skráð af Guðmundi Kristinssyni. Sunnlendingar virðast vera spenntir fyrir því hvernig menn hafa það eftir að þeir eru komnir yfir móðuna miklu.

Sú skáldsaga sem selst hefur best þetta árið er Gamlinginn eftir Svíann Jonas Jonasson. Bókin hefur varla stoppað í hillunum hjá okkur eftir að hafa fengið glimrandi dóma í Kiljunni í haust.

Vinsælustu ljóðabækur ársins eru Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur og Bréf til næturinnar eftir Kristínu Jónsdóttur.

Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson kom út síðsumars og hefur hann selst mjög vel. Þá hefur bókin Íslenskar lækningajurtir eftir Önnu Rósu Róbertsdóttur verið vinsæl hjá okkur og útivistarbókin Góða ferð eftir Helen Garðarsdóttur og Elínu Magnúsdóttur sömuleiðis.

Hávamál endurort af Þórarni Eldjárn og myndskreytt af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur tróna efst á listanum yfir söluhæstu barnabækurnar og ævisaga Sigurðar dýralæknis var vinsælasta bókin í flokki ævisagna.

Af þessu má sjá að það eru Sunnlendingar ( Guðmundur, Sigríður, Jóhann Óli, Anna Rósa, Elín og Sigurður ) sem hafa vinningin í sölunni hjá okkur og langar mig að bæta einum við sem seldi líka vel en það er höfundur Selfossbókarinnar, Gunnar Marel Hinriksson. Selfyssingar hafa tekið bókinni vel og það er kannski ekkert skrýtið því hún sýnir bæinn þeirra í nýju og skemmtilegu ljósi.

Við þökkum svo viðskiptin á árinu sem er að líða. Megi árið sem nú fer í hönd færa ykkur öllum farsæld og frið.

-eg


Haustannáll (kvenkyns)bóksalans

Þetta verður ekki stjörnum prýddur annáll. Heldur aðeins umfjöllun um þær bækur sem bóksalinn hefur haft á náttborðinu á þessu hausti. Framan af hausti voru það einkum ljóðabækur sem voru á borðinu og er þar minnisstæðust ljóðabókin Skrælingjasýningin eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Þau eru skemmtilega hispurslaus ljóðin hennar Kristínar Svövu.

Það var svo um og uppúr 1. nóvember sem lestur hófs fyrir alvöru, en þá var Einvígið eftir Arnald Indriðason lesið. Þetta er fínasta bók eftir Arnald. Plottið var kannski ekki svo merkilegt en hliðarsagan um æsku Marions lögreglumanns er falleg og kannski ætti Arnaldur bara að hætta að hugsa um sölutölur og fara að skrifa fagurbókmenntir.

Næst á eftir Einvíginu las ég Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Bókin gerist á tveimur mínútum eða svo. Hún er safn sextán sagna sem allar gerast á sama tíma. Á þessum tíma rifjast þó margt upp fyrir sögupersónunum þannig að vitanlega er farið fram og aftur í tíma. Af þeim sögum sem mér fannst standa uppúr í þessum sagnasveig er saga prestins. Lestur bókarinnar var annars ljúfur.

Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Selfyssingin Sölva B. Sigurðsson voru næst á dagskrá hjá mér. Bókin fjallar um prestinn Björn í Sauðlauksdal og hans vinnuhjú, en mestan hluta bókarinnar eru þau að undirbúa mikla jólaveislu sem vera á í Sauðlauksdal. Sögusvið bókarinnar er ofanverð átjánda öldin og finnst mér Sölva takast einkar vel upp að lýsa tíðarandanum. Málfar bókarinnar er fornt og hæfir vel efni bókarinnar. Þetta er bók sem óhætt er að mæla með.

Í fyrstu hélt ég að bókin Hvernig ég kynntist fiskunum eftir Tékkann Ota Pavel fjallaði aðallega um stangveiði, en þessi litla og fallega bók fjallar um svo margt annað. Hún fjallar um lífið og um fólk sem hefur ótrúlega seiglu og kjark. Persónur bókarinnar eru líka einkar eftirminnilegar. Frábær bók í fallegri þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Um jólin lauk ég við að lesa bókina Meðan enn er glóð eftir norska rithöfundinn Gaute Heivoll. Bókin er mjög góð. Kannski pínulítið endurtekingarsöm. Bókin fjallar um brennuvarginn Dag og um uppvöxt höfundar bókarinnar, Gaute. Það eru ótrúleg líkindi með þeim báðum þó að það rætist betur úr lífi Gaute en Dags. Það staðfestist í þessari bók að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki. Kannski ekki beint bók sem gott er að lesa um leið og konfektið er etið en engu að síður holl lesning.

Sem stendur liggur bókin Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur á náttborðinu. Ég er enn ekki komin nógu langt til að segja hvernig mér líkar hún. Væntanlega verður fjallað um hana í vorannálnum!

Elín Gunnlaugsdóttir, bóksali


Topp 10! Frá 14. des. - 20. des

Metsölulistinn frá 14. des. - 20. des.

1. Hollráð Hugos - Höf. Hugo Þórisson - Útg. Salka (ný)
2. Kanill - Sigríður Jónsdóttir - Útg. Sæmundur (5)
3. Selfoss - Höf. Gunnar Marel Hinriksson - Útg. Sæmundur (2)
4. Sigurður dýralæknir - Höf. Gunnar Finnsson - Útg. Hólar (ai)
5. Þúsund og ein þjóðleið - Höf. Jónas Kristjánsson - Útg. Sögur (ai)
6. Gamlinginn - Jonas Jonasson - Útg. JPV (ai)
7. Bláklukkur - Guðrún Valdimarsdóttir - Útg. Félag ljóðaunnenda á Austurlandi (4)
8. Sómamenn of fleira fólk - Höf. Bragi Kristjónsson - Útg. Sögur (ný)
9. Málverkið - Ólafur Jóhann Ólafsson - Útg. Vaka-Helgafell (1)
10. Brakið - Yrsa Sigurðardóttir - útg. Veröld (ný)


Topp 5! 6. des. - 13. des. 2011

Metsölulistinn frá 6. des. - 13. des.
1. Málverkið - Höf. Ólafur Jóhann Ólafsson - Útg. Vaka Helgafell
2. Selfoss - Höf. Gunnar Marel Hinriksson - Útg. Sæmundur
3. Aðventa - Höf. Gunnar Gunnarsson - Útg. Bjartur
4. Bláklukkur - Höf. Guðrún Valdimarsdóttir - Útg. Félag ljóðunnenda á Austurlandi
5. Kanill - Sigríður Jónsdóttir - Útg. Sæmundur

Kanill tilnefndur til Fjöruverðlauna

Ljóðabókin Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur bónda í Arnarholti var nú dag tilnefnd til Fjöruverðlaunanna við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafninu í Reykjavík. sigga_jons.jpg

Kanill sem er gefinn út af bókaútgáfunni Sæmundi á Selfossi er önnur bók höfundar en 2005 kom út ljóðabókin Einnar báru vatn. Undirtitill Kanils er Örfá ljóð og ævintýri um kynlíf. Það er bókaútgáfa okkar hjá Sunnlenska bókakaffinu, Sæmundur, sem gefur Siggu út, nú sem fyrr og þetta er okkur mikill heiður. kanill_copy.jpg

Fjöruverðlaunin voru fyrst veitt 2007 en að þeim standa Rithöfundasambandið og Hagþenkir. Veitt eru þrenn verðlaun, fyrir fagurbókmenntir, fræðirit og barnabækur. Í fyrri umferð eru tilnefnd þrjú verk í hverjum flokki til verðlauna eða alls 9 en á nýju ári verða svo  þrjú þeirra valin til að hljóta sjálf verðlaunin.


Í umsögn dómnefndar um Kanil segir:


Hreinskiptin og tilgerðarlaus bók, nýstárleg að formi og innihaldi, með sjö ljóðum og einu ævintýri. Bókina einkennir erótík með femíniskum undirtóni auk leiftrandi myndmáls og vísana úr alvöru íslenskri sveitarómantík.


Ævintýri, skemmtisögur og átthagafræði

Fjölbreytt og spennandi upplestrarkvöld

Sjötti og síðasti fimmtudagslestur skálda verður í Sunnlenska bókakaffinu á fimmtudaginn 15. desember kl. 20:00, en þá mæta til leiks eftirtaldir rithöfundar:

Kristín Helga Gunnarsdóttir segir frá ævintýrabókinni Ríólítreglunni sem gerist að hluta til á Suðurlandi í sögutíma Torfa í Klofa jafnframt því að spanna ævintýri nútímafólks.

Hildur Hákonardóttir mun kynna bókina Á rauðum sokkum, sem er viðtalsbók við tólf konur sem tengdust rauðsokkuhreyfingunni. Hildur er ein þessara kvenna.

Gunnar Marel Hinriksson kynnir ljósmyndabókina Selfoss sem hefur fengið þá dóma að vera í senn bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg og smellin samsuða um Selfossbæ.

Helen Garðarsdóttir og Selfyssingurinn Elín Magnúsdóttir kynna ferðahandbók sína Góða ferð sem er nauðsynleg öllum sem hyggja á útivist og ferðalög á Íslandi.

Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld og bóksali kynnir bók sína Póstkort frá París sem kom út á árinu og hefur vakið mikla athygli.

Björn Jóhann Björnsson rithöfundur og blaðamaður segir frá bók sinni Skagfirskar skemmtisögur þar sem er að finna 200 gáskafullar sögur af samtímamönnum þar nyrðra.

Þórunn Kristjánsdóttir íslenskufræðingur segir frá bók Elínar Thorarensen, Angantý sem segir frá sérstæðu ástasambandi sínu við skáldið Jóhann Jóhannsson (1896-1932). Bókin kom fyrst út 1946 og var þá á bannlista hinna sómakæru. Hún er nú endurútgefin með ítarefni.

Húsið opnar kl. 20:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg Selfossbók

Bókmenntatímaritið Spássían birtir í nýjasta tölublaði sínu lofsamlegan dóm um ljósmyndabókina Selfoss eftir Gunnar Marel Hinriksson. Dómurinn er svohljóðandi:kapa_selfossbok

Ljósmynda- og textabókin Selfoss eftir Gunnar Marel Hinriksson er ekki dæmigerð glansmyndabók. Höfundurinn teflir saman svarthvítum myndum af Selfossi sem hann hefur tekið sjálfur og textum um svæðið sem hann velur héðan og þaðan og stilli...r upp við hlið myndanna, án frekari útskýringa.

Yfirlýstur tilgangur er enginn, umgjörðin aðeins stuttur formáli eftir Pál Sigurðsson sem byrjar á setningunni „Ég vakna oft í skurði þegar mig dreymir Selfoss" og tengir Selfoss við fortíðina, náttúruna, Kardimommubæinn, lestarstöð og kortabækur. Um framhaldið segir einungis:

„Hér eru gráar myndir af Selfossi, einsog hann er, þegar búið er að ljósmynda hann einsog landslag. Ef til vill snertir það einhverjar taugar í hjarta lesandans, hvort sem hann kannast við Selfoss eða ekki."

spassian.jpgMyndir Gunnars Marels fanga bæinn á óvenjulega hlutlausan hátt. Yfirleitt er ekki hægt að sjá tilraun til að draga fram fegurðina í umhverfinu eða undirstrika ljótleika.

Þótt mótsagnakennt megi virðast er það einmitt þetta sem gefur bókinni sjarma, gerir hana sérstaka og hnýsilega. Sjónarhornið virðist oft næstum tilviljunarkennt, mótífið ekkert sérstakt, aðeins smellt af yfir bæinn en samt er eitthvað aðdráttarafl í þeim.

Textabrotin skírskota til myndanna við hlið þeirra á ýmsan hátt en eiga það eitt sameiginlegt að tengjast Selfossi; þarna er allt frá lýsingum Íslendingasagnanna á landnámi í Ölfusi til skilgreininga erlendra bloggara á hugtökunum hnakki og skinka. Útkoman verður bráðskemmtileg; fróðleg, angurvær, kaldhæðin, hranaleg og smellin samsuða sem fær mann til að velta fyrir sér staðnum og fyrirbærinu Selfoss í nýju ljósi.


Metsölulistinn 30. nóv - 6. des.

Metsölulisti Bókakaffisins 30. nóv. - 6. des. 2011

1. Þúsund og ein þjóðleið - Jónas Kristjánsson - Útg. Sögur
2. Konan við 1000° - Hallgrímur Helgason - Útg. JPV
3. Almanak HÍ 2011 -/ - Hásókaútgáfan
4. Selfoss - Gunnar Marel Hinriksson - Útg. Sæmundur
5. Einvígið - Arnaldur Indriðason - Vaka - Helgafell


Æviminningar, spennusögur og örfá ljóð í Bókakaffinu

Fimmtudaginn 8. desember munu lesa í Sunnlenska bókakaffinu þau: ÚIfar Þormóðsson, Jón Bjarki Magnússon, Áslaug Ólafsdóttir, Jón Hjartarson, Finnbogi Hermannsson, Solveig Eggerz og Jón Yngvi Jóhannsson.

Úlfar Þormóðsson les úr bók sinni Farandskuggar, Jón Bjarki Manússon les úr ljóðbókinni Lömbin í Kambódíu (og þú), Áslaug Ólafsdóttir les úr unglingabókinni Undur og örlög, en bókin er skrifuð af barnabarni hennar, Áslaugu Ýr Hjartardóttur. Jón Hjartarson, maður Áslaugar, les úr bók sinni Veislan í norðri, Finnbogi Hermannsson les úr sögulegri skáldsögu sem hann nefnir Virkið í vestri, Solveig Eggerz les úr bókinni Selkonan og að lokum les Jón Yngvi Jóhannsson úr bókinni Landnám sem ævisaga Gunnars Gunnarssonar rithöfundar.

Fjölbreytt og spennandi upplestrarkvöld.

Húsið opnar kl. 20:00 og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Fimm vinsælustu bækurnar frá 23. nóv. - 29. nóv. 2011

Metsölulisti Bókakaffisins 23. nóv. - 29. nóv. 2011

1. Sigurður dýralæknir - Gunnar Finnsson skráði - Útg. Hólar
2. Valeyrarvalsinn - Guðmundur Andri Thorsson - Útg. JPV
3. Góða ferð - Helen Garðarsdóttir og Elín Magnúsdóttir - Útg. Sæmundur
4. Gamlinginn - Jonas Jonasson - Útg. JPV
5. Þúsund og ein þjóðleið - Jónas Kristjánsson - Útg. Sögur


Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband