Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

,,...umhverfið eins og upplitað veggfóður"

Ég hef verið að blaða í nýjustu ljóðabók Matthíasar Johannessen, en hún kom út á liðnu hausti og ber heitið Vegur minn til þín. Eitt ljóðið í bókinni ber heitið 29. sept.'08. Ljóðið fangar að mínu mati vel þá tilfinningu sem varað hefur hér á landi frá þessum örlaga degi. Hér kemur ljóðið:

Á þessari stund
verður umhverfið
eins og upplitað
veggfóður,

á þessari stund
þegar blekkingar okkar
og draumar falla
að einum farvegi
og ósinn hulinn blárri
ógnandi móðu

rís Laki, einn
undir fölblárri
móðu,

einn

úr annálum stoknandi
kviku,

varist þér og varist þér
vindur er í lofti

þegar jötunn
kallar
einn af öðrum

á þessari stund
við rökkur að éli.

Matthías Johannessen

...einhvern veginn finnst mér eins og þessi stund sé orðin ógnarlöng!

-eg


Kristinn R. Ólafsson í Sunnlenska bókakaffinu

Kristinn R. Ólafsson, útvarpsmaður í Madríd, verður með fyrirlestur í Sunnlenska bókakaffinu, Austurvegi 22, Selfossi, þriðjudaginn 20. apríl klukkan 20. Spjallið ber yfirskriftina “Sagan lesin úr listinni”. Þar hyggst hann stikla á stóru í sögu Spánar út frá spænskum listaverkum en vera á léttu nótunum enda af mörgu skemmtilegu að taka: nægir þar að nefna þau konunglegu hjú Jóhönnu brjáluðu og Filippus fagra. Aðgangseyrir er 2500 krónur. Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á þennan þekkta og vinsæla útvarpsmann eru beðnir um að skrá sig í krolafsson@gmail.com eða bokakaffid@sunnlenska.is Einnig er hægt að hringja í Sunnlenska bókakaffið í síma 482 30 79 mán.-lau. 12 – 18.

Kristinn R. hafði þetta að segja um fyrirlesturinn:
“Þetta er ekkert hástemmt heldur í léttum dúr en þó þannig að fólk fái svolitla innsýn inn í hina merku sögu Spánar. Ég nota sömu aðferð og ég hef haft á ýmsum fjölsóttum námskeiðum sem ég hef séð um í Reykjavík undanfarin ár: sýni myndir á tjaldi eða á skjá og kríta í kringum þær. Og í þessu tilfelli fá þeir fundarmenn sem þess æskja einskonar glósur sendar eftirá ef þeir láta mig hafa netfangið sitt – býst við að flestir hafi það. Ég sendi þeim eftir vefleiðum þær myndir af þeim listaverkum sem ég fjalla um með örlitlum skýringum undir til upprifjunar.

Ég var síðast með tveggja kvölda námskeið um þetta efni hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í haust leið. Það sóttu hátt í 80 manns. Þessu þjappa ég nú saman í eina létta kvöldstund.

Ég hef verið að gæla við þá hugmynd að fara út fyrir Reykjavík með fyrirlestur. Og nú læt ég drauminn rætast og verð fyrst á Selfossi en skrepp síðan til Eyja og sproka þar líka um Spán; þetta land sem ég hef búið í núna á fjórða tug ára, sent pistla frá í 29 ár og sýnt Íslendingum sem fararstjóri ótal sinnum. Mig langar að reyna að opna með þessu örlítinn sólarglugga í suðurátt. Að skoða listaverk og spjalla í kringum þau um söguna er skemmtileg leið til þess.

Og þau Bjarni Harðarson og Elín Gunnlaugsdóttir hafa verið svo elskuleg að leyfa mér að hafa þetta hjá sér í Sunnlenska bókakaffinu.”

ATH. Aðgangseyrir 2.500.-


SKÝRSLAN KEMUR 13:15

Sunnlenska bókakaffið fær fyrstu eintök af SKÝRSLUNNI klukkan 13:15 í
dag. Takmarkað upplag en meira vonandi næstu daga. Fyrstir koma fyrstir fá...

-Bænir til að staðfesta líf mitt til dýrðar guði-

,,Þegar ég kom gangandi heim að húsinu mínu í dag sá ég að það hafði breyst í bænahús, og að það hafði verið bænahús allan tímann, þetta var bara dagurinn sem ég sá það". Þessi tilvitnun er úr nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur, en bókin ber nafnið Bænahús. Og Elísabet heldur áfram: ,,Og ég fór að hugsa um allt sem ég hef gert í húsinu í tuttugu ár, vaskað upp, sópað gólfin, ryksugað, þvegið gluggana, strokið af dyrakörmum, skipt um sængurföt, allt þetta eru bænir einsog til að staðfesta líf mitt til dýrðar guði,...". Í þessum fyrsta hluta bókarinnar heldur Elísabet síðan áfram með því að lýsa ákveðnum hlutum í húsinu og hún setur þá í guðlegt samband. Sömuleiðis eru ljósmyndir af hlutunum og undir þeim standa setningar eins og þessi. ,,Og ég sá að píanóið var gott...", en þessi setning er greinilega vísun í sköpunarsöguna. Ljósmyndirnar, sem segja má að séu nokkuð draumkenndar, eru teknar af Veru Pálsdóttur.

Annar hluti bókarinnar heitir Kærleikssambandið. Sá kafli er einkonar dagbók með áherslu á kærleikann.

Þriðji hluti bókarinnar eru svo bænir. Þessar bænir virka meira á mig sem beint samtal við guð en bænir í skilningi þess orð. Hér er Elísabet að rifja upp ákveðin atvik í lífi sínu. Í framhaldi af því koma svo bænir Ellu Stínu, sem túlka mætti sem barnið í Elísabetu. Í lok þessa kafla snýr Elísabet sér svo aftur beint til guðs. Þarna má til dæmis finna þetta samtal: ,,Guð, afhverju á ég stundum erfitt með að vera jafnt og einhver annar, er ég að viðhalda einmanaleikanum?"

Fjórði hluti bókarinnar eru Þakkargjörðir og fimmta hlutann kallar Elísabet Andlega vakningu, sá hluti endar einmitt á þessum orðum: ,,Einu sinni stóð ég útá tröppum í meðferðinni, þá fann ég að logi bærðist í hjartanu, það var logi vonarinnar sem logaði viðkvæmur og smár. Það gerði mig glaða en undrandi því ég hafði ekkert verið að hugsa um vonina. Vonin hafði kviknað."

Bænahúsið er falleg og persónuleg bók. Í henni deilir Elísabet með okkur andlegu lífi sínum og bænagjörðum. Bænagjörðir hennar felast ekki eingöngu í orðum heldur einnig í gjörðum. Bængjörðir hennar eru hin daglegu störf sem hún innir af hendi og lofsamar á þann hátt sköpunarverkið. Nokkuð sem við hin getum lært af henni.

-eg


Lokað vegna framkvæmda fram á þriðja í páskum

Af einskærum dugnaði, elju og fórnfýsi að ekki sé talað um hetjulund, hagleik og snilld hefur Sólbakkahyskið nú málað gólf og svolítið veggi líka í Sunnlenska bókakaffinu. En meðan málningin er að þorna er lokað, alveg fram á þriðjudag kl. 12. Sjá nánari frásögn af hetjuverkinu hér og þeir sem samt vilja versla við okkur geta farið í netbókabúðina, hér.

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband