Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Konubók og þjóðháttabók

alda_armanna.jpg Bóksali hlýtur að blogga um bækur. Tvær eru á náttborðinu hjá mér þessa dagana og eiga það sammerkt að vera gefnar út af litlum forlögum. Önnur er merkilegt þjóðháttarit sem gefin var út af kortaútgáfufyrirtækinu Karton árið 1998. Hún heitir Horfin handtök og er eftir Pétur G. Kristbergsson. Rit þetta fjallar um vinnubrögð við saltfisk og kol á kreppuárunum. Hér er mikilli þekkingu um verkmenningu þjóðarinnar bjargað á land og ritið hið vandaðasta.

Hin bókin á náttborðinu er sjálfsævisaga og listaverkabók listakonunnar Öldu Ármönnu Sveinsdóttur. Bókina sem heitir Kona í forgrunni gaf listakonan sjálf út nú fyrir jólin síðustu. Alda er mér ekki ókunnug en systir mín á fyrir mann son hennar Jón Júlíus Elíasson. Bók þessi er jafn skemmtileg og höfundurinn en einnig mikið og merkilegt framlag í þjóðfélagsumræðu. 

Alda lýsir hér baráttu við heilbrigðiskerfi og stofnanir. Maður hennar glímir ævilangt við alvarlega sjúkdóma og yngsta barn þeirra hjóna fæðist mikið fatlað  inn í samfélag þar sem þjónusta við fötluð börn er mjög af skornum skammti. Hér er sögð saga sem stendur okkur mjög nærri í tíma en er þó sem betur fer um margt fjarlæg þeim sem nú lenda í svipuðum sporum. Tilfinningar foreldris eru þó líkar á öllum tímum og sagan er holl lesning öllum sem staðið hafa í svipuðum sporum. 


Furðurveröld Terrence Bumbly

clicktobuy.jpgÞað eru margar forvitnilegar bækur í Sunnlenska bókakaffinu og ein þeirra er bókin ,,The Museum of Unnatural History" eftir Terrence Bumbly. Nafn höfundarins er reyndar dulnefni en það upplýsist hér (með leyfi frá honum) að hið rétta nafn hans er David Henley og er hann Ástrali, búsettur í Sydney.

Bókin gerist á 25. öld og er herra Bumbly sögumaðurinn. Í bókinni segir hann frá safni sem bróðir hans stofnaði og hýsir safnið ýmsar furðurverur. Skömmu áður en bróðir hans deyr gerir hann herra Bumbly að yfirmanni safnsins. Svo óheppilega vill þó til að einn daginn kemur upp eldur í safninu og það brennur til kaldra kola. Til að reyna að varðveita í einhverri mynd það sem var í safninu ákveður herra Bumbly að rissa upp myndir af þeim furðurskepnum sem þar voru og skrifa um þær.Í bók herra Bumbly ,,The Museum of Unnatural History" má því sjá myndir af þessum skepnum og lesa um þær.

Herra Bumbly þessi hefur einnig opnað vefsíðu þar sem kynnast má veröld hans betur og er slóðin www.bumblyverse.com Herra Bumbly stefnir líka að því að gefa út nýja bók, en fyrsta bók hans ,,The Museum of Unnatural Hisory" fæst eingöngu í áströlskum bókabúðum og svo í Sunnlenska bókakaffinu!


Prjónakaffi 17. febrúar

Tíminn líður og prjónarnir tifa.

Næsta prjónakaffi Sunnlenska bókakaffisins verður þriðjudaginn 17. febrúar kl. 20:00.

Guðbjörg Runólfsdóttir sér um að það sé til kaffi og með því.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Birkilanskir auðmenn og hetjusögur í bókahillum

saemundur_stefansson.jpg Á birkilönskum degi eins og þessum er eiginlega ekki við hæfi að blogga um pólitík. Jón Ásgeir sem þjóðin hefur borið á höndum sér lengi kennir nú öllu öðru en sjálfum sér um sínar ófarir og vorkennir sér að tapa úr höndum sér búðasjoppum í London. Honum er aftur á móti slétt sama um þann skaða sem hann hefur unnið íslenskri þjóð með glannaskap sínum. Og kennir svo Davíð um!

Þetta er eiginlega ófyrirleitnari og vitlausari farsi en svo að gaman sé að og nær á degi eins og þessum að lesa bækur en fréttir. Rakst uppi í skringihillunni minni í bókabúðinni  á næfurþunnt blátt harðspjaldakver frá 1929 eftir Sæmund Stefánsson niðursetning sem heitir Æfisaga og draumar. Karl þessi var fæddur 1859 á Bjarnastöðum í Hvítársíðu og ólst upp sem niðursetningur við illt atlæti:

 Eg man ekki betur, en að eg væri barinn því nær á hverjum degi í fjögur ár...

Hér er grimmdarleg lýsing á uppvexti manns sem nær fyrir vikið aldrei fullum líkamsþroska, veikist af holdsveiki og lifir það að finna útlimi, bein og holdstykki  detta af sér, ýmist af kali eða veikindum. En í stað þess að klæmst sé á þessu eins og Laxnes óneitanlega gerir í sambærilegri ævilýsingu í Ljósvíkingnum eða þá að höfundur sé fullur sjálfsvorkunnar í anda Birkilands er sagan sögð blátt áfram. Höfundur er þakklátur fyrir þá sem reynast honum vel en sleppir því að nafngreina hina.

Sæmundur niðursetningur er því alls ólíkur Jóni Ásgeiri í því að kenna veröldinni um það sem miður fer og hefði þó frekar efni á því. 

(Eins og fyrr fær bókakaffið að endurbirta blogg sem ég skrifa um bækur og þó að þetta sé um bækur og pólitík læt ég það fljóta hér inn. -b. Sjá bjarnihardar.blog.is)


Guðdómlega leiðinlegar bækur

Meira bókablogg og nú ætla ég að venja mig af þessu lofi um bækur. Það kemur ekki til af lyganáttúru sölumannsins og ekki heldur þrælsótta gagnvart höfundum og forleggjurum. Heldur hinu að ég hendi gjarnan frá mér vondum bókum og nenni ekki að skrifa um þær og það eru margar sem ég hendi. Í nýlegri ævisögu var sagt frá 19. aldar bónda sem hafði svo lítil tún að hann varð að slá á engjum. Þá hætti ég að lesa. Heimskulæti af þessu tagi eiga heima í sjónvarpi, ekki bókum. IMG_7688L

Samt er ákveðin tegund af vondum bókum sem ég les, - það eru þessar skrýtnu, helst mikið skrýtnar og þá því leiðinlegra því betra. Í þessum flokki eru bæklingarnir sem Megas syngur um í kvæði sínu um Birkiland;

Við seldum litla bæklinga
                  en salan hún var treg...

Ég veit ekkert hvernig salan hefur gengið á bæklingi fjögurra bænda á Skeiðunum en hann er í dag fágæti þrátt fyrir að vera bæði leiðinlegur og torskilinn. Íslenskan á honum er góð eins og á öllu af Skeiðunum og ritið kitlandi naív.

Þetta er semsagt bæklingur frá 1951 sem stílaður er af Hinriki heitnum í Útverkum á Skeiðum og er angi af verstu innansveitarkróniku sem nokkur hreppur hefur staðið frammi fyrir. Verkið að gera úr því skemmtilega bók bíður sagnameistara komandi daga en þessi pési heitir: "Afréttar-málið sem orsakaði mestu kjörsókn á Íslandi."

Bæklingur þessi er ekkert einsdæmi. Á þessum tímum og lengi fyrr var það algeng leið til að útkljá deilumál í þröngum hópi að gefa út um þau hlutdrægar og langlokulegar lýsingar á prenti. Það er annar hér í fornbókabúðinni hjá mér ekki síður skrautlegur samsetningur sem heitir Rangindi og rjettarfar eftir Gísla Jónsson og greinir frá hvunndagslegu þrasi alþýðumanna á Nesjum í Grafningi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Aö vísu aðeins fyrri hluti í langri ferðasögu en mér sýnist að sá síðari hafi aldrei komið út.

Þriðja smáritið sem hér leynist er Orrustan á Bolavöllum eftir Pétur Jakobsson fasteignasala í Reykjavík (f. 1886). Ritið er áritað Sigurgrími Jónssyni í Holti. Nafnið vekur forvitni þar sem hér er vísað til orrustu á þeim stað þar sem forn hindurvitni segja að næst verði barist á Íslandi en vellir þessir eru einmitt neðan við Hellisheiðarvirkjun. Ef einhver lesandi veit til hvaða atburða höfundur er hér að vísa væri gaman að fá um það fróðleik en mér sýnist þetta skemmtiríma af raunverulegu ati, jafnvel pólitík eða þá einhverjum kunningjaslagsmálum.


Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband