Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Litla stúlkan og sígarettan...

Báðir textarnir virtust orka tvímælis ... enda stönguðust þeir á. litlastulkan
Samkvæmt lögum Ríkisins nýtt hinn dæmdi, Desiré Johnson, sér lagalegan rétt sinn og vísaði til 47. greinar refsilaganna sem heimilaði honum að reykja síðustu sígarettuna sína áður en hann yrði tekinn af lífi.

Fyrir sitt leyti fór Quam Lao Ching, fangelsisstjórinn nákvæmlega eftir innri reglugerð 176 b, sem kvað á um fanganum væri óheimilt að kveikja í sígarettunni. Þessi viðbótarreglugerð, sem bannaði alfarið notkun tóbaks innan veggja fangelsisins, hafði verið bætt við ári áður vegna þrýstings frá samtökum sem berjast fyrir lýðheilsu.

Auðvitað kunni hugmyndin um það að verja heilsu dauðadæmds að orka tvímælis nema menn líti á það sem hárfína grimmd. En slíka ráðstöfun, sem var í þágu meirihlutans, var óhugsandi að túlka þrengra. Enda þótt úrelt væri leyfði 47. grein hins vegar afdráttarlaust að fanginn fengi hinstu ósk sína uppfyllta og fengi sér nokkra smóka...

(Upphaf að frabærri sögu franska höfundarins Benoit Duteurtre, Litla stúlkan og sígarettan og er skyldulesning nú á tímum vaxandi heimsku og sefjunar. Stórmerkileg lesning. -b.)


Fjarskanistanfarar í Sunnlenska bókakaffinu


Fimmtudaginn 30. október kl. 20:30 verða Egill Bjarnason og Yousef Ingi Tamimi með fyrirlestur í Sunnlenska bókakaffinu. Egill mun fjalla um ferð sem hann fór á þessu ári um Afganistan, Pakistan og Íran. Yousef ætlar að segja frá ástandinu í Palestínu þar sem hann starfaði sem sjálfboðaliði í sumar.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.


Bloggsíða bókanna

Sunnlenska bókakaffið hefur opnað bloggvef þar sem bækur af öllu tagi taka til máls. Vefur þessi er hluti af bloggvef Morgunblaðsins og opnaður þar með góðfúslegu leyfi Árvakurs. Með vef þessum er ætlunin að skapa umræðu um bókmenntir, fornar og nýjar. Opið verður fyrir athugasemdir og skoðanir lesenda.

 

Auk þess verða á bókavefnum upplýsingar um nýútkomnar bækur og sagt frá bókum sem seldar eru í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi. Þar er jöfnum höndum verslað með kaffi og bækur, nýjar og notaðar.

 

Við opnun hins Sunnlenska bókavefs blogga meðal annarra bóka nokkrar sem nýkomnar eru á markaðinn, s.s. Alkasamfélagið eftir Orra Harðarson, Hafskip í skotlínu eftir Björn Jón Bragason og Meðan hjartað slær sem er lífsreynslusaga Vilhjálms Þórs Vilhjálmssonar hárskera, rituð af Sigurði Þór Salvarssyni.

 

Bloggvefur Sunnlenska bókakaffisins mun enn fremur birta aðsendar greinar um bækur, bókadóma og fréttir af bókamönnum eftir því sem tilefni gefast.

 

Ritstjórar vefsins eru hjónin og bóksalarnir Elín Gunnlaugsdóttir og Bjarni Harðarson.

(Fréttatilkynning, nánari upplýsingar í síma 694 3874 og 897 3374)


Rubáiyát og Skuggi

Það eitt ég veit - hvort sannleiksbálsins blysskak_og_frelsid
mér blessun færa, eða sorgir, slys -
að betri er krá, þó kæti sé þar mest,
en kirkja þar sem engin glæta sést...

Þannig hljóðar 56. erindi Rubáiyát kvæðabálksins eftir Ómar Khayyám í þýðingu Jochums Eggertssonar sem tók sér höfundarnafnið Skuggi. Sunnlenska bókakaffið var að fá í hús gullfallegt eintak af þessari bók sem út kom 1946 í 150 tölusettum eintökum. Eintakið sem er til sölu hjá okkur er númer 148 og vitaskuld áritað af þýðandanum en ekki höfundinum en sá síðarnefndi lést fyrir um 1000 árum síðan og var persi. Kvæðabálkurinn er merkilegur óður til lífsins, lífsnautnarinnar og ber vitni um það upplýsta menningarskeið sem var meðal þeirra þjóða sem nú hafa grafið sig niður í holtaþoku trúarofstækis.

Nú opnar vorið arma undur blítt -
og engilfagurt skrúðir blómið nýtt
í litagljá í ljóssins fagra hjúp
við lind og straum við fjall og sæ og djúp.

Þýðandinn Skuggi var einn af sérstæðari rithöfundum 20. aldar sem setti fram margvíslegar einkennilegar kenningar um íslenska menningu, sögu þjóðarinnar og uppruna Íslendinga. Um þær má meðal annars lesa í bókinni Brísingamen Freyju sem einnig fæst í Sunnlenska bókakaffinu. Skuggi var bróðursonur Matthíasar Jochumsonar og náfrændi Sigurðar heitins Sigurmundssonar í Hvítárholti í Hreppum.

Á undan Skugga þýddi Magnús Ásgeirsson Rubáiát og er sú þýðing mun þekktari en báðar þykja góðar. Skuggi þótti þrátt fyrir sérkennilegheit vel skáldmæltur og er mjög andríkur í sínum skrifum.

Myndin hér á síðunni er annars úr allt annarri átt. Tvær góðar sem voru að detta inn í búðina í dag, annarsvegar kennslubók í skák eftir Pétur Zophoníasson ættfræðing sem var afi Péturs læknis í Laugarási. Hitt er grundvallarrit allra sem eru borgaralega sinnaðir í pólitík, fyrsta útgáfa hérlendis á fagnaðarerindi frjálslyndis og kapítalisma, Frelsið eftir John Stuart Mill í þýðingu Jóns Ólafssonar en bókin kom hér fyrir sjónir Íslendinga 1886 en rit þetta var þá aldarfjórðungsgamalt. Frelsið eða Um Frelsið (On Liberty á frummálinu) er klassíker sem enn á erindi við stjórnmál samtímans...


Merkileg en leiðinleg

indridi_gislason 

Indriði Gíslason las þetta bindi á Eiðum veturinn 1949 – 50 og þótti fróðlegt en leiðinlegt.

Eftirfarandi áritun er að finna á saurblaði bókarinnar Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi eftir Pál Eggert Ólason sem gefin var út í Reykjavík 1922. Bókin er ein fjölmargra í fornbókaverslun Sunnlenska bókakaffisins og kostar þar aðeins 500 krónur. Næta víst má telja að Indriði sá sem gefur bókinni þennan palladóm sé sonur Gísla Helgasonar fræðimanns í Skógargerði og faðir Ernu blaðakonu. Indriði þessi var íslenskufræðingur og prófessor við Kennaraháskóla Íslands, fæddur 1926 og hefur því verið liðlega tvítugur þegar hann las Menn og menntir.

Þrátt fyrir þennan hreinskilna dóm er greinilegt að bók þessi hefur verið lesin síðar en í henni er að finna sem bókamerki rifrildi úr dagblaði þar sem greina má auglýsingu frá fyrirtækinu Fínum miðli sem starfaði í landinu um síðastliðinn aldamót:

Í lokakafla bókarinnar er nokkurt yfirlit yfir sálmakveðskap og þýðingar Skálholtsbiskupanna Marteins Einarssonar og Gísla Oddssonar en þeir þykja með því versta sem ort hefur verið í íslenskri tungu. Þar í er meðal annars þetta erindi frá þeim fyrrnefnda sem vel á við nú þegar Tyrkir haft okkur undir í kosningaslag:

Halt oss, guð, við þitt helga orð
og heft páfans og Tyrkja morð,
sem vilja Krist, vort sérlegt skjól
setja af sínum veldisstól…

___________________

Myndatexti: Indriði Gíslason í góðum félagsskap, lengst til hægri á myndinni en við hlið hans er Franzisca Gunnarsdóttir og lengst til vinstri sonur hennar skáldið og Gunnar Björn Gunnarsson, dóttursonur nafna síns og skálds á Skriðuklaustri en myndin er tekin í Gunnarsstofnun og birt með leyfi.


Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband