Leita í fréttum mbl.is

Það er helst að ég leggi hendur á þá...

Anna tók aldrei, þvert á það sem margir halda, greiðslu fyrir að leyfa mönnunum að dvelja hjá sér. Þetta voru vinnumenn, sem fengu mat og húsaskjól og áttu í staðinn að hjálpa henni við búskapinn. En hvað hefur Anna að segja um vinnumennina á Hesteyri? „Ég vildi hjálpa mönnum sem hvergi áttu athvarf. Ég held einnig að ég hafi beðið Guð um að gefa mér einhvern til að hjálpa mér.
Jón Daníelsson var fyrsti maðurinn sem dvaldi hjá mér, hann var öðlingur að öllu leyti og gallalaus. Hann var sérstakur maður og hetja frá upphafi til hinstu stundar.


Jón var ekki útigangsmaður, hann átti heimili í Hafnarfirði en kaus engu að síður frekar að búa hjá mér á Hesteyri. Hann var kominn á aldur og fann sér ekki vinnu við hæfi og hafði setið aðgerðarlaus í húsinu sínu að Grænukinn. Honum leiddist aðgerðarleysið og vildi hafa eitthvað að starfa. Jón var ákaflega hjálpsamur, hann kunni að smíða og skilaði góðu verki. Okkar samskipti gengu ákaflega vel og þannig byrjaði þetta. Það var verið að segja í útvarpinu frá fólki sem verður fyrir stórum slysum, næði góðum bata en enginn vildi hafa örkumlaða í vinnu hjá sér. Þá var það sem ég bað góðan Guð um að hjálpa mér að fá einhvern til okkar, ef mamma leyfði það reyndar, því það var hún sem réði þarna náttúrlega. Ég vildi hjálpa fleirum. Og eftir lát Jóns voru vinnumenn sífellt að koma og fara.

Mér hefði þótt skemmtilegra að hafa kvenfólk hjá mér, það abbast síður upp á aðra. Samt get ég ekki sagt að mennirnir sem hafa verið hjá mér hafi gert mér neitt, það hafa þeir ekki gert greyin, nema kannski í orðum stundum, sumir hafa brúkað svolítinn kjaft. Engu að síður hafa þeir nú orðið vinir mínir.

Ég vil helst geta gert eitthvert gagn. Taka til mín utangarðsmenn sem hafa ekkert húsaskjól, það getur verið notalegt að hafa þá. Einn þeirra ætlaði að leika á mig og brugga. Ég sagði við hann: „Þú mátt ekki brugga!" „Nei, nei, það geri ég ekki," sagði hann. „Hvernig var með tunnuna?" spurði ég hann þá. „Ha, tunnuna?" sagði hann. „Þeir sögðu að það hefði verið mikill vínandi í henni þegar það var hellt úr henni," sagði ég. „Æ, var hellt úr henni?" sagði hann. Hann ætlaði að leika á kerlinguna en ég kunni krók á móti bragði.

En þeir hafa aldrei lagt hendur á mig. Það er helst að ég leggi hendur á þá, ég tek þá hálstaki. Mennirnir sem voru hjá mér voru stundum að sýna sig og ég varð að halda þeim á mottunni.
Í eitt skipti sýndi einn maðurinn sem var hjá mér sig líklegan til að ráðast á mig. Þá voru þeir hjá mér þrír í allt. Þessi var reiður af því ég vildi ekki að hann drykki inni. Ég var búin að segja honum að það ætti ekki að drekka í stofunni, hann mátti drekka inni í herbergi fyrir mér, en hann kom samt með vínið fram í eldhús. Ég hafði gefið honum áminningu um þetta, var fremur mild við hann og leyfði honum að hafa þetta inni í herberginu, en þegar hann hlýddi engum reglum varð ég að skikka hann til. Þá sagði hann að það væri réttast að veita mér bara tiltal og taka í mig. Hann stóð og ég lá þarna á bakinu eins og ég er löng á dívaninum í stofunni. Hann var að rífa sig, eindæma skeytingarlaus, að reyna að espa mig upp, en ég lét hann ekkert komast upp með það. Þá sagði hann: „Þú liggur bara hin kjurrasta!" Ég svaraði að ég væri alveg róleg. „Já, þú heldur það, spikfeit gömul kerling, liggjandi uppi í dívan, þú hlýtur að geta ráðið því, hvort þú ættir að ráðast á mig eða ekki," sagði hann.

Þá spratt ég upp og skellti handleggnum yfir hálsinn á honum. Sagði honum bara að vera kjurran og haga sér vel. Þessi maður var lítill og þegar ég, eins og hann sagði, spikfeit gömul kerling, var hangandi utan um hálsinn á honum, gat hann sig ekki hreyft og ekki haldið uppi neinni vörn. Ég tók hann aftur svona taki þegar hann fór eitthvað að ybba sig og ætlaði í þriðja skiptið að gera það en þorði ekki annað en að snögghætta því það höfðu sprungið æðar á hálsinum á honum þegar þrengdi að og þá varð ég hrædd. Ég steinhætti og hvernig sem hann skammaðist við mig sagði ég ekki orð, steinþagði.  Honum þótti þetta sjálfum leiðinlegt að þetta hefði komið fyrir. Hann freistaðist til, af því ég var svo roggin, þá langaði hann að sýna sig, en hann lagði ekki á mig hendur, bara í orðum og óhlýðni.

Þeir hlýddu mér eftir þetta. Það var aldrei svo að ég berði þá, það gerði ég ekki. Það er meiri hætta að maður meiði menn á því. En Jónas Gunnarsson hlýddi yfirleitt alltaf á stundinni.
Þrátt fyrir stöku krytur fannst mér útigangsmennirnir sem komu til mín vera hver og einn gjöf frá Skaparans hendi. Þeir voru ólíkir talsvert, ekki samstæðir einu sinni. En allir voru þeir Guðs blessun og eru enn."

ÉG HEF NÚ SJALDAN VERIÐ ALGILD. Ævisaga Önnu Mörtu Guðmundsdóttur, Hesteyri, Mjóafirði eystra. Rituð af Rannveigu Þórhallsdóttur, Seyðisfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband