Leita í fréttum mbl.is

Mensalder á metsölulista

Bókin Mensalder sem Sunnlenska bókakaffið gefur út er á metsölulista Eymundsson aðra vikuna í röð. Hér á heimavelli hefur þessum heiðurskarli úr Holtunum líka verið vel tekið. Myndin hér að neðan er af Mensalder á yngri árum. Hér að neðan birtum við sýnishorn úr bókinni...

mensi_ungur.jpg

...

Og þar kom að þessari lúsiðnu ösku og langvinna norðangjósti var nóg um frýjuna. Um nóttina hrukku þau upp í bælum sínum, Manga og Þormóður, tröllið sem barði hér nestið í hreppsrúminu. Undir kvöld hafði lægt og allt var kyrrt eftir miðaftan. Allt í einu hóf hann sig upp aftur í sömu átt en allt annarri vídd og undir nýju lagi.

Þau heyrðu það bæði að þessi gjóstur sem áður kvað í eintóna sífri um að moka og skera og saga og raka og vinna, hann var horfinn. Hljóðin nú komu langt innan úr fjallaskörðum gömlu drottningarinnar og voru strax í fjarskanum margræð, hlæjandi og ill. En þó var hann hægur hér á Vesturbakkanum og lét eins og ekkert stæði til. Miklu nær en dans háloftanna heyrði Manga bænamuldrið í Þormóði og spennti sjálf greipar.

Hún hlustaði á hvernig hæðnishláturinn ofan úr Vatnafjöllum jók háreystina, gældi við þau ofurnæmu móðureyru jarðar sem þessum vesalingum voru léð á nóttu meðan aðrir sváfu. Það hækkaði og lækkaði sig á víxl eða þá þagnaði nær alveg í léttum strokum yfir Kjalrákartungunum og safnaði í næstu kviðu. Gamalmennið var sofnað undir eigin tuldri en Manga kreppti undir sér fæturna andfætis þessum öldungi. Þau lágu í fleti sem Jakob kallaði í sínu monti hreppsrúmið síðan þeim tveimur var plantað niður í það á útsvar Lækjarbúsins.

Um leið og hún dró fæturna að sér fann hún með eigin tám kalda fætur gamalmennisins. Hún starði í molduga súðina og hlustaði sem í leiðslu á tónverk guðanna í loftinu, spennti greipar aftur og lokaði augum, færði tærnar undir skorpna rasskinn sína, opnaði lófana og fól loks andlit sitt í þeim. Þannig hálfsat hún uppi þegar dagaði eykt síðar. Hún var þegar hún komst til sjálfrar sín sem steinrunnin af blygðan. Hér sat hún og vissi allt og skynjaði sjálfar höfuðskepnurnar en aðrir úuðu af tómlátri furðu yfir látunum. Óskírð tvíburakrílin ömruðu og voru ein grunlaus.

Höfuðskepnurnar nörtuðu ekki lengur í túnið þarna úti, barnshnefa í senn, heldur bitu græðgislega stórt í lífgjöfina og þeyttu heilu ljáfari í bunu upp af bæjartúninu, langt út í buskann.

– Strákar, upp með ykkur. Hann er hálfvitlaus. Fariði og fergiði galtann.

...

 

 

 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband