Leita í fréttum mbl.is

Vinsælast; ljóð, húmor og lífstílsbækur

Ljóðabókin Árleysi alda eftir Bjarka Karlsson er tvímælalaust hit ársins í Sunnlenska bókakaffinu.  Annars lítur metsölulisti bókabúða yfirleitt allt öðruvísi út en metsölulist stórmarkaðanna þar sem Yrsa og Arnaldur bítast um efstu sætin. Í bókabúðum er gert út á úrvalið og því selst stundum jafn mikið af fyrstu bók í einhverjum bókaflokki og þeirri nýjustu. Dæmi um þetta eru barnabækur Gunnars Helgasonar en þar seldist nær jafn mikið af fyrstu bókinni Víti í Vestmannaeyjum og af nýjustu bókinni Rangstæður í Reykjavík. Í svona bókaflokki er nefnilega skemmtilegra að kynnast söguhetjunum frá byrjun.

Vinsælustu barna- og unlingabækurnar  þessara jóla voru annars Tímakistan eftir Andra Snæ Magnason, Vísindabók Villa eftir Vihelm Anton Jónsson og Afbrigði eftir Veronicu Roth.

Af íslenskum skáldsögum seldist mest bókin Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson, Stúlka með maga eftir Þórunni Erlu og Valdimarsdóttur og Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson. Vinsælasta þýdda skáldsagan á árinu  er Maður sem heitir Ove eftir Fredrick Backman en hástökkvari jólanna var Ólæsinginn sem kunni að reikna  eftir Jonas Jonasson.

Vinsælasta ævisaga ársins í Bókakaffinu er sagan Sigrún og Friðgeir eftir Sigrúnu Pálsdóttur, þá var bókin Gullin ský – Ævisaga Helena (Eyjólfsdóttir) rituð af Óskari Þ. Halldórssyni vinsæl og einnig bók Ragnars skjálfta, Það skelfur.

Í fyrra voru bækur um hár og hárgreiðslu einkar vinsælar en þetta árið voru það hinar ýmsu matreiðslu- og megrunarbækur og af megrunarbókum voru það LKL – bækurnar  (Lág kolvetna lífstíll) sem runnu út, í sumarog haus,t eins og heitar lummur. Þá voru bækur með skemmtisögum og húmor vinsælar og má þar nefna vísna- og gamansagnabók gangnamanna í Svarfaðardalnum, Krosshólshlátur, Skagfirskar skemmtisögur í samantekt Björns Jóhanns Björnssonar og bók Guðna Ágústssonar, Guðni: léttur í lund

Í upphafi var greint frá því að  landinn sækir greinilega enn í hefðbundin ljóð og ,,ljóðið ratar greinilega enn til sinna” og það gerði nýjasta ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Skessukatlar,  einnig en hún seldist upp í búðinni og hjá útgefanda og var því ófánleg síðustu dagana fyrir jól. Þá var nýjasta ljóðabók Sigríðar Jónsdóttur Undir ósýnilegu tré einnig vinsæl.

Af þessari umfjöllun má sjá að fjölbreytnin og gróskan er mikil og auðvitað seldust Lygi eftir Yrsu Sigurðardóttur og Skuggasund eftir Arnald Indriðason alveg ágætlega í Sunnlenska bókakaffinu eins og annar staðar. En það er samt mat okkar bóksalanna að landinn sæki orðið jafn mikið í húmor og spennu. Til marks um það eru hinar ýmsu gamansagnabækur og bækurnar Maður sem heitir Ove og Ólæsinginn sem kunni að reikna.

 

Elín Gunnlaugsdóttir 

 


Sumarlesningin mín

Ég hef verið dálítið föst í spennusögum þetta sumarið, að hluta til út af  starfi mínu í bókabúðinni. Það er alltaf gott að þekkja aðeins til höfundanna og það eru jú spennusögurnar sem seljast hvað mest á sumrin.

Ég hóf sumarið á því að lesa sprellfjörugan kósýkrimma sem ber nafnið Kaffi og rán og er eftir Catharinu Ingelman-Sundberg. Sagan fjallar um gamalmenni sem búa á elliheimili þar sem allt er fremur naumt skammtað og maturinn er bragðlaus. Til að hressa aðeins uppá tilveruna ákveða þau að fremja rán. Sagan er bráðskemmtileg og á köflum spennandi. Hún  minnir mann líka á að öll höfum við okkar væntingar sama á hvaða aldri við erum.

Næsti krimmi sem lenti á náttborðinu var Dauðaengillinn eftir Söru Blædel. Dauðaengillinn óskaplega verðmæt glermynd sem hefur verið í eigu sömu fjölskydunnar í langan tíma. Dauðaengillinn hverfur og sömuleiðis fjölskyldufaðirinn. Sagan fléttast að mestu í kringum glermyndina og ég verð að segja að mér fannst hvorki sagan né persónusköpunin trúverðug.

Djöflatindur eftir Deon Meyer er aftur á móti frábær spennusaga. Sagan gerist í Höfðaborg í Suður-Afríku og aðal söguhetjan er Benny, einkar drykkfelldur lögreglumaður, hann er við það að missa konuna út af drykkju sinni en um leið glímir hann við erfitt mál. Benny eltist við morðingja sem hefur lýst barnaníðingum einkastríð á hendur. Margar aðrar  áhugaverðar persónur koma við sögu og hitinn og ólgan í Suður-Afríku skila sér vel í gegnum sögunna.

Eftir þennan lestur fannst mér nú nóg komið af spennusögum. Næsta bók sem lenti á náttborðinu var Indian Nocturne eftir ítalann Antonio Tabucchi. Bókin fjallar um mann sem fer að leita vini sínum á Indlandi, en það hefur ekkert heyrst frá honum í heilt ár. Bókin kom fyrst út árið 1984 og gerist því fyrir tíma internets og snjallsíma. Þetta er áleitin saga og í lok bókarinnar veit maður ekki hvort vinurinn og sá sem er að leita að honum, séu í rauninni einn og sami maðurinn. Ég veit ekki hvort þessi bók fæst á Íslandi, en þeir sem eru tæknivæddir geta kannski keypt hana sem rafbók eða pantað hana Amazon.

Ég var búin að vera um klukkutíma í  einni af frægustu bókabúðum Parísarborgar, Shakespeare and Company, þegar ég rakst á bókina Parísarkonan eftir Paulu McLain. Bókin kom út á íslensku fyrir seinustu jól og ég hafði heyrt talað vel um hana. Ég hef samt ekki lagt í að lesa hana fyrr en nú, það eru til svo margar bækur og bíómyndir um París og margar þeirra eru mjög klisjukenndar. Mér finnst Paulu Mclain takast í þessari sögu að þræða framhjá flestum Parísarklisjum. Í bókinni segir frá sambandi Hadley Richardsson og Ernest Hemingway, en hún var fyrsta konan hans. Sagan hefst í Chicago, en berst svo til Parísar. Höfundi bókarinnar tekst að draga upp mjög sannfærandi mynd af Hadley og hefur greinilega góða þekkingu á verkum Hemingway. Frásagnarstíllinn er meira að segja töluvert í anda Hemingways. Sagan gefur góða mynd af því hvernig lífið var í París á árunum 1920-1925, en einnig má segja að hún sýni vel hvernig rithöfundurinn Ernest Hemingway verður til. Hemingway skrifaði vissulega um þetta sjálfur í Veislu í farangrinum, en í Parísarkonunni er sagan sögðu út frá sjónarhóli konunnar og það er töluvert annað sjónarhorn. Sagan vakti mig einnig til umhugsunar um stöðu konunnar á þessum árum. Hadley tekur hlutverk sitt sem eiginkona mjög alvarlega og er greinilega hægri hönd Ernest (ef ekki líka vinstri) og með það í huga er kennski enn þá sorglegra hvernig samband þeirra endar.

Fleiri bækur hafa legið á náttborðinu í sumar en það verður ekki fjallað um þær í þessum pistli. Kannski síðar.

Elín Gunnlaugsdóttir


Vinsælustu bækurnar

Góð sala hefur verið á bókum í Sunnlenska bókakaffinu fyrir jólin sem og á árinu öllu. Vinsælustu íslensku skáldverkin eru Mensalder eftir Bjarna Harðarson, Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur og
Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur. Allar þessar bækur hafa fengið góða dóma og í Mensalder og Ljósmóðurinni er sögusviðið sunnlenskt og höfðar því enn frekar til lesanda á Suðurlandi.

Í ævisögum á Gísli á Uppsölum eftir Ingibjörgu Reynisdóttur vinninginn og Elly (um Elly Vilhjálms) eftir Margréti Blöndal fylgir fast á eftir. Núna á allra síðustu dögum hefur salan á Appelsínum frá Abkasíu eftir Jón Ólafsson tekið góðan sölukipp.

Limrubókin í samantekt Péturs Blöndals blaðamanns er tvímælalaust söluhæsta ljóðbókin og textar Megasar frá 1966-2011 hafa verið vinsælir, en eru því miður uppseldir hjá útgefanda.

Hrafnsauga eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson er vinsælasta barnabókin í ár, enda margverðlaunuð. Reisubók Ólafíu Arndísar eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur er sömuleiðis vinsæl, en hún er uppseld hjá útgefanda. Sunnlenska barnabókin Kattasamsærið eftir Guðmund Brynjólfsson er vinsæl bók, en Guðmundur býr á Eyrarbakka og Suðurland er því hans heimasvæði.

Í þýddum bókum hefur Hungurleikaserían eftir Suzanne Collins vinninginn yfir árið, aðrar vinsælar bækur eru Hin órtúlega pílagrímsganga Harolds Fry eftir Rachel Joyce og Englasmiðurinn eftir Camillu Läckberg. Fyrir jólin hafa Krúnuleikar eftir George R.R. Martin verið vinsælasta þýdda bókin.

Að lokum má geta þess að Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur er vinsælasta matreiðslubók ársins og bókin Hárið eftir Theodóru Mjöll er vinsælasta bókin í flokki bóka almenns efnis. Þá er Almanak HÍ (eða háskólans) alltaf sívinsælt. Því má ætla að Sunnlendingar borði í framtíðinni hollari mat og að þeir gangi á nýju ári um bæinn með fallega greitt hár og séu vel upplýstir um sjávarföll við strendur landins.


Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband