Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Örstutt á Degi íslenskrar tungu

Í nýrri ljóðabók Gyrðis Elíassonar ,,Nokkur orð um kulnun sólar" er lítið ljóð um orðið lífsbaráttu. Það hljómar svona:

FAGNAÐAREFNI FYRIR
RITSTJÓRA ORÐABÓKA

Orðið lífsbarátta
hefur aftur
fengið merkingu

Vitanlega er höfundur hér að gera örlítið grín, en ljóðið vekur mann til umhugsunar um orð og merkingu þeirra. Merking orða getur breyst eftir því í hvaða samhengi þau eru sögð og jafnvel eftir því hver segir þau. Því á bak við orðin sem eru sögð eru tilfinningar þess sem talar og sá sem hlustar og nemur túlkar svo á sinn hátt. Mig minnir að Milan Kundera geri þetta að umfjöllunarefni í einum kafla í bók sinni ,,Óbærilegur léttleiki tilverunnar".

Njótið dagsins.

-eg


Metsölulistinn 4. nóv - 10. nóv. 2009

Metsöluslisti frá 4.11 – 10.11 2009

1. Sagnabrot Helga Ívarssonar - höf. Helgi Ívarsson - útg. Sunnlenska bókaútgáfan
2. Svo skal dansa - höf. Bjarna Harðarson – útg. Veröld
3. Svörtuloft - höf. Arnaldur Indriðason – útg. Mál og menning
4. Í Kvosinni – Flosi Ólafsson – útg. Skrudda
5. Heimsmetabók Guinness 2010 - /- útg. Vaka - Helgafell
6. Lubbi finnur málbeinur – höf. Þóra Mássd. og Eyrún Ísfold Gíslad. – útg. Mál og menning
7. Ef væri ég söngvari – Ragnheidur Gestsdóttir myndskreytti- útg. Mál og menning
8. Enn er morgunn – höf. Bödvar Gudmundsson – útg. Uppheimar
9. Bangsímon – höf. A.A. Milne – útg. Edda
10. Alltaf sama sagan – höf. Þórarinn Eldjárn – útg. Mál og menning


Helgi Ívarsson kominn á bók

sagnabrot_helga_i_holum_kapa

Í vikunni kom út á vegum Sunnlensku bókaútgáfunnar úrval af skrifum Helga Ívarssonar og heitir bókin Sagnabrot Helga í Hólum. Helgi var sem kunnugt er fastur dálkahöfundur á Sunnlenska fréttablaðinu síðustu æviár sín. Sameiginleg útgáfuhátíð vegna bókar Helga og bókarinnar Vökulok sem Sögufélag Árnesinga gefur út verður í Tryggvaskála næstkomandi sunnudag klukkan 16.

-----

Bókin Sagnabrot Helga í Hólum geymir úrval af skrifum fræðimannsins og bóndans Helga Ívarssonar frá Hólum í Stokkseyrarhreppi (1929-2009). Hér að finna greinar um þjóðfræði og sögu, sagnir af fátækt fyrri alda, kvenskörungum og höfðingjum, brot úr byggðasögu, ástarsögu frá gamalli tíð og frásögn af innreið útvarpsins í menningarlíf Flóamanna, svo fátt eitt sé talið.

Tök Helga á íslensku máli voru einstök hvort sem var í ræðu eða rituðu máli. Sú gáfa höfundarins nýtur sín vel í ritgerðum þeim sem hér birtast en ekki síður yfirburða þekking á viðfangsefninu. Helgi var barn tveggja tíma og þekkti af eigin raun margt í ævafornum vinnubrögðum og þjóðlífssiðum. Hann ber hér saman lífshætti 21. aldarinnar og þess tíma sem hann sjálfur fékk innsýn í hjá gömlu fólki í Flóanum snemma á 20. öld. Þannig verða skrif hans um matarmenningu, veðurspár og hjátrú hvalreki öllum þeim sem fást við sagnfræði og þjóðfræði. Í öllu þessu tekst höfundi snilldarlega að tvinna saman ritaðar heimildir handrita og bóka við munnlega geymd hins aldna sagnaþular.

Aftast í riti þessu er skrá yfir ritstörf Helga Ívarssonar og bókinni fylgir einnig vönduð nafnaskrá.


Kossaflóð og málbeinið hans Lubba

Jólabókaflóðið er fleira en Arnaldur og einstæðar mæður. Nú flæða hér inn barna- og unglingabækur. Fjallaði aðeins hér fyrr um tvær af unglingabókunum, Kimselíus og bók Guðmundar okkar Brynjólfssonar um Þvílíka viku unglinganna. JPV110718

Tvær barnabækur hafa vakið athygli mína og báðar komið mér þægilega á óvart fyrir að vera vel gerðar og eru jafnframt bækur sem eiga bæði erindi til barna og fullorðinna. Önnur er bók Hallgríms Helgasonar um konuna sem kyssti of mikið. Þetta er frumraun höfundar á sviði barnabóka og þar er Hallgrímur greinilega vel liðtækur ekki síður en í alvarlegri ritun. Bókin er um konu sem við þekkjum allir og sumir þekkja margar svona konur, sumir eru ógn þrúgaðir af svona konum en samt eigum við það sameiginlegt að án þessara kvenna viljum við ekki vera. Um leið og höfundur skrifar þannig inn í hjörtu okkar um þekkta manngerð skrifar hann hugljúfa og þroskandi barnasögu.

Þá er það Lubbi finnur málbein, bók um íslensku málhljóðin. Þessi bók er allt í senn, barnabók, kennslubók og fræðirit. Nauðsynleg barninu en ekki síður öllum foreldrum sama hafa sérstakan áhuga á málþroska barnanna og vitaskuld skyldulesefni kennara. Sjálfur legg ég ekki í að lesa hér mikið af ótta við að tapa dýrmætum sérkennum í málhljóðum.


Metsöluslisti Sunnlenska bókakaffisins frá 28.10 – 3.11 2009


Við munum birta lista yfir mest seldu bækurnar í búðinni hjá okkur fram að jólum. Listinn mun birtast einu sinni í viku. Hann verður birtur fyrst í Sunnlenska fréttablaðinu og síðan hér á blogginu hjá okkur.

Metsöluslisti Sunnlenska bókakaffisins frá 28.10 – 3.11 2009

1. Svo skal dansa - höf. Bjarna Harðarson – útg. Veröld

2. Ef væri ég söngvari - Ragnheidur Gestdóttir valdi og myndskreytti – útg. Mál og menning

3. Matur og drykkur – höf. Helgu Sigurðardóttur – útg. Opna

4. Orrustan um Spán – höf. Antony Beevor – útg. Hólar

5. Milli trjánna – höf. Gyrdi Elíasson -útg. Uppheimar

6. Enn er morgunn – höf. Bödvar Gudmundsson – útg. Uppheimar

7. Aftur til Pompei – höf. Kim M. Kimselius – útg. Urður

8. Hetjur – höf. Kristín Steinsdóttir – útg. Forlagið

9. Í Kvosinni – Flosi Ólafsson – útg. Skrudda

10. Bangsímon – höf. A.A. Milne – útg. Edda


Frábær allegoría og mögnuð stríðsárabók (Bókablogg IV)

Það er með nokkru hiki að ég held áfram að blogga um bækur. Rétt eftir að ég skrifaði frekar lofsamlega um Falska nótu Ragnars Jónassonar í vikunni sátu þau í sjónvarpinu Kolla og Páll Baldvin og rökkuðu sömu bók niður af slíkum ofsa að  annað eins hefur líklega ekki sést síðan Arnaldur gaf út sína fyrstu bók. Að vísu ekki leiðum að líkjast fyrir sakamálahöfund og vonandi að hinn ungi höfundur láti ekki slá sig útaf laginu. Sjálfur sá ég ekki Kiljuþáttinn fyrr en daginn eftir og var því fráleitt að skrifast á við þáttakorn þetta.

folsknota.jpg

Ungir rithöfundar eru vitaskuld það mikilvægasta og þessvegna er rétt að fagna því hvað við eigum þar marga efnilega. Einn þessara er Óttar Norðfjörð sem sýndi góða byrjunartakta í Hníf Abrahams án þess að þar væri nein snilld á ferðinni. Nú sendir Óttar frá sér bókina Paradísarborg sem er snilldarleg allegóría um íslenskt samfélag og íslenska hrunið en um leið svo margt annað. paradisarborgin.jpg

Bókarhöfundur spilar hér á svipaðar nótur og þeir meistararnir Brecht í Brennuvörgunum  og Ionesco í Nashyrningunum. Ég fæ mig ekki til að segja of mikið frá söguþræðinum, það er ljótt gagnvart þeim sem eiga eftir að lesa en lýsingar á kassalaga stjórnmálamönnum með hrokafulla sérfræðinga sér við hlið að réttlæta hrun og eyðileggingu hitta í mark. Sefjunin, lygin, örvæntingin og okkar eilífa undanlátssemi.

dottir_maedra_minna.jpgÞriðji ungi höfundurinn sem hér verður nefndur er Sindri Freysson (hann er enn undir fertugu, Óttar er held ég varla þrítugur og Ragnar rétt kominn á fertugsaldur).  Sindri sendir frá sér seiðmagnaða sögulega skáldsögu, Dóttir mæðra minna, sem er af örlögum nokkurra ísfirskra kvenna á stríðsárunum. Mig skortir heimildir um það að hve miklu leyti saga Sindra er sannsöguleg en hún er fyrst og fremst mögnuð lýsing á fólki, barattu þess og örlögum. Hnausþykkur doðrantur og hverrar blaðsíðu virði.

(Eftir þennan lestur kunna einhverjir að spyrja hvort ég telji einfaldlega allar bækur góðar, en það er fráleitt svo og meirihluta þeirra bóka sem ég byrja á legg ég frá mér hálflesnar. En ég er bóksali og kýs hér að fara þá leið að blogga síður um bækur sem mér líkar afleitlega við)

 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband