Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Burðarlasinn ekkjumaður sem dó í Stórubólu

Á árunum 1697-1707 bjó í Keldnakoti í Flóa maður að nafni Þorvaldur Jónsson. Hann mun fæddur 1635 og er húsmaður  á Skúmsstöðum á Eyrarbakka 1681. Talinn í manntali 1703 ekkjumaður "burðarlasinn," dó í Stórubólu 1707. Dætur átti hann þrjár og er af þeim nokkur saga.

 

Þannig hefst þáttur Helga Ívarssonar um Þorvald í Keldnakoti þar sem segir fráfjölmörgum merkum Flóamönnum, þar sem fléttað er saman heimildum 18., 19. og 20. aldar en þátturinn er skráður á þeirri 21. 

 

Þegar ég skráði örnefni í Brattsholti 1983 var áberandi vallgróin rúst vestan við túnið nefnd Þórutóft nr. 13 á örnefnaskránni. Sigurður Pálsson fæddur í Brattsholti 1895 var heimildarmaður minn þarna um örnefnin. Taldi hann að þarna hefði verið kofi einsetukonu með þessu nafni en kunni á henni engin deili. Í huga mér er óljós sögn um að konan í kofanum hafi verið Þóra Bergsdóttir sem þarna hafi búið sín síðustu ár. Set ég þetta hér með stærsta fyrirvara því sögnin er óviss.

 

Ekki er þó gaman að guðsspjöllunum ef enginn er í þeim bardaginn og því eru í þáttum Helga ýmsir bardagar:

 

Þeirrar orsakar vegna að hérnefnd Margrét hafði uppá sig játað í votta viðurvist að hún hefði tekið með leynd eina á frá nefndum Ingimundi, skorið hana á næturtíma og falið síðan í poka, niður í brunni falið og þetta sama höfðu leitarmenn fundið þá þeir það rannsökuðu. Er nú Margrét áðurnefnd hér persónulega nálæg og játar nú sem fyrr þetta allt satt að vera: En öngva segir hún í þessu verki með sér hafi hvörki í ráðum né dáðum.

 

Sjá nánar í kveri því sem út kemur þegar líður að hausti, sjá nánar http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/entry/875558/

 

 


Dan Brown = Ian Flemming

dan_brown

Myndin "Englar og djöflar" var frumsýnd núna fyrir stuttu. Eins og flestir vita er hún gerð eftir samnefndri bók eftir höfundinn heimsfræga Dan Brown. Bókin er nokkuð góð og höfundurinn nær að spila vel úr staðreyndum án þess að breyta þeim of mikið. Hún er vissulega betri en bókin "Da Vinci lykillinn" þar sem sagan gerist óttalega hægt og eiginlega alltof lítið gerist á hverri síðu og þannig nær höfundur að lengja bókina með einstaklega leiðinlegum og of rómantískum lýsingum á umhverfinu.

Það var líka gerð mynd eftir þeirri bók sem var eins og bókin, ekki upp á marga fiska. Þrátt fyrir það náði sú mynd bókinni betur heldur en myndin "Englar og djöflar" náði sinni bók. Í "Da Vinci lyklinum" gerðist meira og minna allt eftir bókinni. Hún gerðist hægt, persónan sem hann Tom Hanks lék var mjög stirð og hundleiðinleg og franska leynilögreglan hélt uppi skemmtilegri alhæfingu Frakka, semsagt mjög hrokafullur.

Myndin "Englar og djöflar" breytir bókinni frá því að vera mjög fræðandi og fyndin í að vera eins og einhver James Bond thriller með alltaf töff aðalpersónu sem minnir helst á persónu Ian Flemmings, James Bond. Einnig hefur hún tekið að sér sama hraða og margar kjánalegar Hollywood myndir gera.

Það er leiðinlegt að sjá hvernig Hollywood tekst að eyðileggja fínar bókmenntir bara til að heilla til sín nokkra áhorfendur og græða peninga. Og ef ég vitna í Robert Plant: "In the old days, this would be called selling out."

gbv.


Bóksalinn í þungum þönkum

Ég veit ekki hvað á að segja um fyrirmyndina en ljósmyndarinn Stefán Karlsson á Fréttablaðinu kann sitt fag en hann smellti þessari mynd af bóksalanum nú á vordögum.

bjarni2_bokabudinni_stefan_karlsson


Úr rekkanum

holmes

Tveir menn sitja og drekka kaffi. Annar er læknir en hinn sögufrægur rithöfundur. Inn kemur maður sem er algjörlega óþekktur lækninum og hafa þessir tveir menn aldrei hist. Samt sem áður er það fyrsta sem læknirinn segir við hinn óþekkta mann:

"Þú hefur greinilega verið að koma frá pósthúsinu."

Gesturinn veit lítið hvað skal segja en kemur loks upp úr sér: "Hvernig í fjáranum vissirðu það?"

Læknirinn: "Þessa seinustu daga hafa verið framkvæmdir við pósthúsið þar sem þeir hafa verið að laga klóakið. Þessi staður er sérstakur fyrir það að þar er sérstök mold sem er aðeins á þessum stað. Þessi sama mold er núna á skónnum þínum."

 Þessa sögu sagði ágætur fastakúnni, Hafliði Magnússon, mér þegar hann sá bókina "The Penguin Complete Sherlock Holmes" í tvöhundruð króna rekkanum. Þessi saga segir frá Arthur Conan Doyle, rithöfundinum, og vini hans lækninum sem er fyrirmynd af einkaspæjaranum athugula.

Það er margt sem leynist í tvöhundruð króna rekkanum.

-gbv.


Frönsk stemmning í Sunnlenska bókakaffinu

Föstudaginn 22. maí mun frönsk stemmning svífa yfir vötnum í Sunnlenska bókakaffinu. Frönskum bókmenntum verður gert sérlega hátt undr höfði þennan dag og kaffið verður serverað á franska vísu. Að kvöldi dags, kl. 20:00, munu þau Hlín Pétursdóttir, sópran og Vadim Fedorov, harmóníkuleikari flytja franska kaffihúsamúsík. Aðgangur að þeirri uppákomu er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Þessi franska dagskrá er hluti af Vori í Árborg og er styrkt af Menningarráði Suðurlands.


...búin að kosskveðja

Ferðbúin konan var búin að kosskveðja og gekk burt frá hjónarúminu með tösku sína. Hún lauk upp hurðinni og lét aftur á eftir sér. Bóndinn kúrði sig niður á meðan. Hann hlustaði nákvæmlega á fótatak hennar fjarlægjast í framstofunni og anddyrinu uns útidyrahurðin skall í lás á eftir henni...

Ég er frjáls! Þrír dagar og þrjár nætur framundan. Guði á himnum sé lofi og dýrð!

...

(HKL: Veiðitúr í óbygðum, Sjöstafakverið, aðeins 499 kr.)


Áskrifendur að Helgakveri

Þeir sem óska eftir að kaupa Helgakver í áskrift geta skráð nafn sitt hér að neðan með tölvupósti, bokakaffid@sunnlenska.is  eða í athugasemdakerfi. Vinsamlega takið fram nafn, titil eða heimilisfang ef óskað er eftir að slíkt birtist og síðan símanúmer sem verður þó ekki birt en er hér til þess að staðfesta skráningu.

Textinn sem birtist ofan við nöfn áskrifenda verður einfaldlega eftirfarandi:

Helgi Ívarsson 1929-2009

Bóndi og fræðimaður í Hólum í Stokkseyrarhreppi

Með virðingu


Þjóðargjöfin

Félag íslenskra bókaútgefenda sendi fyrir um 10 dögum 1000 kr. ávísun inná hvert heimili í landinu. Ávísunina má nýta við kaup á bók eða bókum. Kaupa þarf fyrir 3000 kr. eða meira svo hægt sé að nýta hana. Með þessu vilja bókaútgefendur ásamt bóksölum hvetja til bókakaupa og bóklesturs.

Margir hafa þegar nýtt ávísunina sína í Sunnlenska bókakaffinu og þeir sem eiga enn þá ónýtta ávísun eru hvattir til að gera það eigi síðar en á mánudaginn (4. maí) en hún rennur út í lok þess dags.

Það mikið til í þessum málshætti: Bók er best vina.

-eg


Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband