Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Þórarinn og Bjarni á upplestrarkvöldi

Þórarinn Eldjárn skáld og Bjarni Harðarson fyrrverandi alþingismaður kynna bækur sínar í Sunnlenska bókakaffinu í kvöld, fimmtudagskvöldið 27. nóvember. Húsið opnar klukkan 20:30. bokakaffi_gisli_sveinsson 019

Þórarinn Eldjárn þarf vart að kynna en hann hefur verið í hópi fremstu rithöfunda og ljóðskálda þjóðarinnar í áratugi. Kvæðasafn Þórarins kom út á árinu og geymir mikinn skáldskaparfjársjóð. Þar í eru allar ljóðabækur hans, átta talsins og úrval úr fimm barnaljóðabókum. Hér má finna afar fjölbreytilegan ljóðaforða en skáldið er jafnvígt á ýmis ólík stílbrögð og efnistök ljóðlistarinnar.

farsaeldarfron Einn af vertum staðarins, Bjarni Harðarson bóksali og fyrrverandi alþingismaður kynnir splunkunýja bók sína, Farsældar Frón. Í henni er að finna úrval af greinum höfundar frá síðustu árum þar sem fjallað er um dægurmál og strauma og stefnur. Meðal þess sem hér er fjallað um eru nashyrningar, Evrópumál, Framsóknarflokkurinn, trúmál, umhverfismál og fyrstu 50 blaðsíðurnar eru helgaðar íslenska efnahagsundrinu.

(Myndin að ofan er frá heimsókn Þórarins í bókakaffið haustið 2006.)


Upplestur og prjónakaffi

Upplestur í Sunnlenska bókakaffinu fimmtudaginn 27. nóvember kl. 20:30

Þórarinn Eldjárn les úr Kvæðasafni sínu
og Bjarni Harðarson kynnir bók sína Farsældar Frón.

Hið sívinsæla prjónakaffi verður svo þriðjudaginn 2. desember kl. 20:00

Kaffi, kakó og pönnukökur.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Fluga á vegg

167Það er gamlársdagur og við Arnar og Tommi erum búnir að snatta í kringum brennuna síðan í morgun. Stóru strákarnir segja okkur annað slagið að hundskast burt, því við séum bara litlir aumingjar með hor sem þorum engu, en við segjum að það sé ekki rétt, við höfum komið með þrjá fulla strigapoka af spýtum sem við stálum úr hlöðunni hans Valda.

- Jæja, segir Fúsi sem á heima í blokkinni uppi við Hringbraut, fyrst þið stáluð spýtunum megiði vera með, er það ekki, strákar?

Fúsi er stór og sterkur eins og pabbi hans sem er járnsmiður og alltaf kolsvartur í framan þegar hann kemur heim úr vinnunni. Fúsi er aldrei viðbjóðslegur við okkur litlu strákana eins og vitleysingarnir hans Valda, heldur leyfir hann okkur stundum að vera með þegar stóru strákarnir stífla skurðina svo vatnið safnast í tjarnir sem hægt er að sigla skútunum á. Fúsi er svo sterkur að þegar hann segir eitthvað þá er það samþykkt orðalaust. Nú samþykkja allir að við megum vera með í brennunni, bara af því Fúsi segir það.

(Skrautlegar persónur, tíðarandi, viðburðir, vinir, óvinir, myndir sem greipast í hugann. Fluga á vegg lýsir uppvaxtarárum ungs drengs í Vesturbæ Reykjavíkur um miðja síðustu öld. Eins og við er að búast frá hendi Ólafs Hauks Símonarsonar, bók full af gamansemi, dramatík og hugljúfum stemningum. Útg. Skrudda)


Upplestur í Sunnlenska bókakaffinu

Upplestur í Sunnlenska bókakaffinu fimmtudaginn 20. nóvember kl. 20:30

Einar Kárason les úr bók sinni Ofsa og

Unnur Sólrún syngur og les ljóð sín.

10% afsláttur á bókum Einars Kársonar þetta kvöld.

Kaffi og pönnukökur.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir


Í tilefni dagsins

Í tilefni af degi íslenskrar tungu set ég inn þetta brot úr Ávarp fjallkonu eftir Þórarinn Eldjárn:

Að eiga sér mál
í málóðum heimi
sækja í þann sjóð
sagnir
fræði
ljóð
enn og aftur
geta ekki hætt að gruna
né gleymt að muna.


Það er helst að ég leggi hendur á þá...

Anna tók aldrei, þvert á það sem margir halda, greiðslu fyrir að leyfa mönnunum að dvelja hjá sér. Þetta voru vinnumenn, sem fengu mat og húsaskjól og áttu í staðinn að hjálpa henni við búskapinn. En hvað hefur Anna að segja um vinnumennina á Hesteyri? „Ég vildi hjálpa mönnum sem hvergi áttu athvarf. Ég held einnig að ég hafi beðið Guð um að gefa mér einhvern til að hjálpa mér.
Jón Daníelsson var fyrsti maðurinn sem dvaldi hjá mér, hann var öðlingur að öllu leyti og gallalaus. Hann var sérstakur maður og hetja frá upphafi til hinstu stundar.


Jón var ekki útigangsmaður, hann átti heimili í Hafnarfirði en kaus engu að síður frekar að búa hjá mér á Hesteyri. Hann var kominn á aldur og fann sér ekki vinnu við hæfi og hafði setið aðgerðarlaus í húsinu sínu að Grænukinn. Honum leiddist aðgerðarleysið og vildi hafa eitthvað að starfa. Jón var ákaflega hjálpsamur, hann kunni að smíða og skilaði góðu verki. Okkar samskipti gengu ákaflega vel og þannig byrjaði þetta. Það var verið að segja í útvarpinu frá fólki sem verður fyrir stórum slysum, næði góðum bata en enginn vildi hafa örkumlaða í vinnu hjá sér. Þá var það sem ég bað góðan Guð um að hjálpa mér að fá einhvern til okkar, ef mamma leyfði það reyndar, því það var hún sem réði þarna náttúrlega. Ég vildi hjálpa fleirum. Og eftir lát Jóns voru vinnumenn sífellt að koma og fara.

Mér hefði þótt skemmtilegra að hafa kvenfólk hjá mér, það abbast síður upp á aðra. Samt get ég ekki sagt að mennirnir sem hafa verið hjá mér hafi gert mér neitt, það hafa þeir ekki gert greyin, nema kannski í orðum stundum, sumir hafa brúkað svolítinn kjaft. Engu að síður hafa þeir nú orðið vinir mínir.

Ég vil helst geta gert eitthvert gagn. Taka til mín utangarðsmenn sem hafa ekkert húsaskjól, það getur verið notalegt að hafa þá. Einn þeirra ætlaði að leika á mig og brugga. Ég sagði við hann: „Þú mátt ekki brugga!" „Nei, nei, það geri ég ekki," sagði hann. „Hvernig var með tunnuna?" spurði ég hann þá. „Ha, tunnuna?" sagði hann. „Þeir sögðu að það hefði verið mikill vínandi í henni þegar það var hellt úr henni," sagði ég. „Æ, var hellt úr henni?" sagði hann. Hann ætlaði að leika á kerlinguna en ég kunni krók á móti bragði.

En þeir hafa aldrei lagt hendur á mig. Það er helst að ég leggi hendur á þá, ég tek þá hálstaki. Mennirnir sem voru hjá mér voru stundum að sýna sig og ég varð að halda þeim á mottunni.
Í eitt skipti sýndi einn maðurinn sem var hjá mér sig líklegan til að ráðast á mig. Þá voru þeir hjá mér þrír í allt. Þessi var reiður af því ég vildi ekki að hann drykki inni. Ég var búin að segja honum að það ætti ekki að drekka í stofunni, hann mátti drekka inni í herbergi fyrir mér, en hann kom samt með vínið fram í eldhús. Ég hafði gefið honum áminningu um þetta, var fremur mild við hann og leyfði honum að hafa þetta inni í herberginu, en þegar hann hlýddi engum reglum varð ég að skikka hann til. Þá sagði hann að það væri réttast að veita mér bara tiltal og taka í mig. Hann stóð og ég lá þarna á bakinu eins og ég er löng á dívaninum í stofunni. Hann var að rífa sig, eindæma skeytingarlaus, að reyna að espa mig upp, en ég lét hann ekkert komast upp með það. Þá sagði hann: „Þú liggur bara hin kjurrasta!" Ég svaraði að ég væri alveg róleg. „Já, þú heldur það, spikfeit gömul kerling, liggjandi uppi í dívan, þú hlýtur að geta ráðið því, hvort þú ættir að ráðast á mig eða ekki," sagði hann.

Þá spratt ég upp og skellti handleggnum yfir hálsinn á honum. Sagði honum bara að vera kjurran og haga sér vel. Þessi maður var lítill og þegar ég, eins og hann sagði, spikfeit gömul kerling, var hangandi utan um hálsinn á honum, gat hann sig ekki hreyft og ekki haldið uppi neinni vörn. Ég tók hann aftur svona taki þegar hann fór eitthvað að ybba sig og ætlaði í þriðja skiptið að gera það en þorði ekki annað en að snögghætta því það höfðu sprungið æðar á hálsinum á honum þegar þrengdi að og þá varð ég hrædd. Ég steinhætti og hvernig sem hann skammaðist við mig sagði ég ekki orð, steinþagði.  Honum þótti þetta sjálfum leiðinlegt að þetta hefði komið fyrir. Hann freistaðist til, af því ég var svo roggin, þá langaði hann að sýna sig, en hann lagði ekki á mig hendur, bara í orðum og óhlýðni.

Þeir hlýddu mér eftir þetta. Það var aldrei svo að ég berði þá, það gerði ég ekki. Það er meiri hætta að maður meiði menn á því. En Jónas Gunnarsson hlýddi yfirleitt alltaf á stundinni.
Þrátt fyrir stöku krytur fannst mér útigangsmennirnir sem komu til mín vera hver og einn gjöf frá Skaparans hendi. Þeir voru ólíkir talsvert, ekki samstæðir einu sinni. En allir voru þeir Guðs blessun og eru enn."

ÉG HEF NÚ SJALDAN VERIÐ ALGILD. Ævisaga Önnu Mörtu Guðmundsdóttur, Hesteyri, Mjóafirði eystra. Rituð af Rannveigu Þórhallsdóttur, Seyðisfirði


Vor tregafulla tilvera

Ég var að ljúka við að lesa bók Guðmundar Andra Thorssonar, Segðu mömmu að mér líði vel, en bókin kom út hjá JPV fyrir skemmstu. Bókin er einkar læsileg eins og Guðmundar er von og vísa og fjallar hún um ástina í öllum sínum myndum. Hún fjallar einnig um lífsneistann og hvað gerist þegar hann slokknar. Hvernig skuggi eins lífs getur lagst yfir líf annarra og þá sömuleiðis hvernig ástin getur verið umvefjandi og allt um kring þegar hún er til staðar. Bókin fjallar í raun um svo margt og er ljúfsár en jafnfram góð lesning.

eg


Að eiga innistæðu hjá Guði...

...Hvaða heilbrigður maður færi að kveikja í húsinu hans Þorsteins? Það hlýtur að vera einhver verulega brenglaður einstaklingur á bak við svona lagað.varg

- Jú, það er í sjálfu sér rétt. En ég held að við verðum að treysta á að Guð verndi okkur frá fleiri skakkaföllum.

- Ekki verndaði Guð Þorstein og þau.

- Nei, kannski ekki. En það er heldur ekki víst að þau hafi haft innistæðu fyrir því.

- Innistæðu fyrir því! - sagði Stella hneyksluð. - Er nú kennisetningin orðin sú að það þurfi að sleikja sig upp við Guð til að hann haldi verndarhendi sinni yfir manni?

(Jón Hallur Stefánsson: Vargurinn. Bjartur 2008. Vel gerð spennusaga sem lumar á mögnuðum mannlýsingum og senumen ekki síður góðum lýsingum á íslenskum veruleika í litlu sjávarplássi - þar sem Seyðisfjörður er hafður að sviði. -b.)


,,...að auðmenn eiga þjóna en enga vini

Auðmenn eru mikið í umræðunni núna og því datt mér í hug að birta hluta úr ljóðinu Þakherbergið eftir Ezra Pound en þýðingin eftir Sigurð A. Magnússon. Ég rakst á ljóðið í bókinni Nútímaljóð (Rvík, 1967) en Erlendur Jónsson tók saman ljóðin í bókinni. Hér koma upphafslínur ljóðsins sem nefnt var áðan:

Heyrðu, við skulum vorkenna þeim sem eiga meira en við,
já vina mín, og hafðu það hugfast
að auðmenn eiga þjóna en enga vini
og við eigum vini en enga þjóna...

-eg


Sumarljós og svo kemur nóttin...

...konan heitir Rósa, bóndakona úr suðurdölum, situr í hreppsnefnd, kann að skipuleggja, hrinda í framkvæmd, fátt gerist í sveitinni hennar nema hún sé þar með puttana, Rósa á það til að setjast á stól undir vegg og spila angurvær lög á fiðlu fyrir hænsnin á hlaðinu, hundinn og börnin og stundum kemur forvitinn kálfur. Maðurinn býr í þorpinu, þetta er sjálfur Daníel, dýralæknirinn sem bjó um brotinn fót Simma, þegar hann datt af hestbaki. Það er stundum viskílykt af Daníel, hann dreymir um Rósu, skrifar henni ástarbréf sem hann les fyrir nóttina og tólf ára köttinn sinn, gatar það síðan og kemur fyrir í möppu, handarbak hans straukst við úlpuna hennar þegar þau fóru út úr búðinni, það fór straumur um hann allan og lífið var fallegt...

(Jón Kalman Stefánsson: Sumarljós og svo kemur nóttin, Rv. 2005. Frábær nútíma lýsing á íslenskri landsbyggð, - líklega Búðardal þó það sé aldrei sagt. Einn þessara dýrgripa sem fá má fyrir slikk í fornbókabúðinni okkar.)


Næsta síða »

Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband