Leita í fréttum mbl.is

Forvitnilegur bókakassi frá Guðmundi stúdent

Smárit úr bókasafni Guðmundar á Kópsvatni bárust nýlega á Sunnlenska bókakaffið og hafa vakið athygli. Smárit fyrri tíðar og bæklingar voru oft ígildi bloggfærsla samtímans og eru mörg hin mestu fágæti í dag. Oft var upplag slíkra rita lítið en meiru réði þó að vegna smæðar þessara ritlinga lentu þeir með blöðum og tímaritum í ruslinu en varðveittust ekki líkt og bækur gera þó. Einstaka maður sýndi þá ræktarsemi að halda prentmáli þessu til haga, eftirkomendum til menningarauka og ánægju.

Einn þessara var fræðimaðurinn Guðmundur Jónsson á Kópsvatni í Hrunamannahreppi (1930-1989). Hann var sérstæður maður og afkastamikill safnari en fór í engu troðnar slóðir í lífinu. Eftir að kassanum með ritlingunum góðu var stillt upp hafa margir orðið til að spyrja um þennan bókamann. Hér verður tæpt á ævi hans og grúskað aðeins í kassanum góða.

gudm_kopsvatni

Fæddur gamall

Guðmundur Jónsson á Kópsvatni var elstur þriggja sona hjónanna Jóns Guðmundssonar á Kópsvatni og Maríu Hansdóttur sem bæði voru af bændafólki í Hrunamannahreppi. Hann var fæddur 1930 en yngri eru þeir Bjarni fæddur 1934 og Magnús Guðni fæddur 1938, báðir búsettir á Kópsvatni.

 Snemma þótti bera á því að Guðmundur væri góðum gáfum gæddur og hann naut þess að faðir hans var bókamaður. En það fór ekki framhjá jafnöldrum Guðmundar og samferðafólki að drengur þessi fór sínar eigin leiðir, var sérsinna og snemma var haft á orði að hann væri fæddur gamall.

Guðmundur fór til mennta að Laugarvatni og síðar las hann Menntaskólann í Reykjavík að mestu utanskóla. Hann útskrifaðist þaðan með ágætis vitnisburði en fór ekki til frekar náms enda var það í þá tíð mikil menntun ungum alþýðumanni að vera stúdent. Að þeirrar tíðar hætti var hann oft auknefndur með þessum menntatitli sínum rétt eins og síðar varð alsiða að kalla þá doktora sem höfðu hlotið hinn æðsta menntatitil háskólanáms. Líklega var Guðmundur seinastur manna í uppsveitum Árnessýslu til að bera þennan titil þó það væri fátíðara hin seinni ár að hann væri sæmdur honum.

Segja má að Kópsvatnsbóndinn hafi verið fjölfræðingur af gamla skólanum eins og svo margir alþýðufræðimenn fyrri tíðar. „Áhugamál hans voru margþætt og hugur hans iðulega yfirfullur, sem oft vissulega dreifði kröftum hans," skrifaði Sigurður Sigurmundsson í Hvítárholti í minningarorðum um þennan félaga sinn. Sigurði var að vonum minnisstætt að það var Guðmundur sem fann merkar fornminjar í landi Hvítárholts sem þóttu einar þær merkustu á þessu svæði. Hann vann síðan í mörg sumur með fornleifafræðingum að uppgreftri og rannsóknum.

Guðmundur var mjög virkur í félagslífi Hrunamanna, sá um bókasafn þeirra, kom uppbyggingu hótelsins í Skjólborgum og lét sig hreppsmál varða. Hann var einstaklega talnaglöggur maður og veitti sveitarstjórn Hrunamanna oft mikilvægt aðhald með gagnrýni sinni. Guðmundur var mikill félagsmálamaður en þar háði honum að hann var svo gripið sé til orða Sigurðar í Hvítárholti að hann var „...of mikill einfari til þess að samlagast fjöldanum."

Síðar í sömu grein lýsir Sigurður því hvað það var utan seilingar hjá Guðmundi að fara eftir reglum sem aðrir settu og olli eðlilegum árekstrum. Auk félagsmála heima fyrir tók Guðmundur virkan þátt í ýmsum félögum utan héraðs og var m.a. gjaldkeri nýalsinna um árabil.

En lítum ofan í kassann þar sem leynist margur gimsteinninn.

  

Stolin Friðarræða og fyrsta útgáfa kommúnistaávarpsins

Meðal smárita í kassa Guðmundar eru Friðarræða Hitlers sem gefin var út á íslensku 1934. Þá voru að vonum margir sem hrifust af þessum stjórnmálamanni sem reif Þýskaland upp úr eymd og trúðu fagurgala hans í friðarmálum. Bæklingur þessi sem er afar sjaldséður var meðal þess sem kom upp úr kassa Guðmundar en hvarf nokkrum dögum seinna og er það fyrsta og eina skiptið sem bók hefur verið tekin ófrjálsri hendi svo vitað sé í Sunnlenska bókakaffinu.

En það var síður en svo hægri slagsíða í þessum kassa. Hér er einnig að finna fjölmarga vinstri ritlinga og þar á meðal fyrstu íslensku útgáfu kommúnistaávarpsins, sem kom út á Akureyri 1924 í þýðingu þeirra Stefáns Péturssonar og Einars Olgeirssonar. En eins og hæfir á góðu sveitaheimili er hér legíó framsóknarbæklinga og Hriflufræða. Því fer reyndar fjarri að Hriflu-Jónas sé Framsóknarflokknum alltaf vinveittur í skrifum sínum hin seinni ár þegar hann var hvað duglegastur við útgáfu lítilla rita.

Bæklingar Jónasar frá sjötta áratugnum hafa á sér tímaritstitilinn Ófeigur þó fátt minni á tímarit. Hér eru á ferðinni langlokur gamals stjórnmálamanns sem líkjast helst löngum Reykjavíkurbréfum samtímans. Hann veitist óspart að þeim Hermanni Jónassyni og Eysteini Jónssyni og er sérstaklega illa við hugmyndir þessara lærisveina sinna að vinna til vinstri. Hann er staddur á miðstjórnarfundi þar sem rætt er um ríkisstjórnarmynstur.

Andlegir öreigar í Framsókn

„Framsóknarmönnum, sem heyrðu ósigurspárnar á miðstjórnarfundinum, mun hafa verið ljóst betur en áður, að þeir hafa fram að þessu lifað af fornum andlegum birgðum frá tímabili áður en þeir hófu tálsönginn um vinstristjórn með bolsivikum. Allur kjarni flokksins er eldri en það ævintýri. Þar eru þúsundir vaskra manna, karla og kvenna, sem mynduðu samtök og héldu þeim við, þótt til átaka kæmi um réttlætis og framfaramál. Frá þeim tíma er starfslið flokksins, nema Daníel Ágústínusson og Jóhannes skírari. Frá þeim tíma eru samvinnublöðin, innheimtukerfi kaupfélaganna og nálega allt starfsfólk Tímans og Dags. Á þessum miðstjórnarfundi var flokkurinn líkt settur og hús með olíuhitun þar sem allar leiðslur eru í lagi en birgðahylkið tómt. Hugsjónirnar vantaði. Þessvegna varð samkoman eins og illa ort kvæði í stíl Kristjáns Jónssonar um hinn óviðgeranlega harmleik andlegra öreiga, sem langar til að öðlast og halda völdum, án þess að vita til hvers á að nota þau."

Fáséð kynbótafræði og magnaðar trúardeilureftirkomendur

Í kassa Guðmundar má einnig finna fáséðan bækling Karls Fabels Gazzarro frá 1931 sem heitir Eftirkomendur eftir eigin vali, grundvöllur hamingju hjónabandsins. Hér eru á ferðinni vægast sagt umdeildar kenningar um makaval, barneignir og erfðir. Þá eru ekki síður athyglisverðar trúardeilur þeirra Jóhanns Hannessonar trúboða og Péturs G. Guðmundssonar. Trójumannasaga hin forna sem er prentuð eftir útgáfu Jóns Sigurðssonar forseta úr dönskum annálum, fyrsta útgáfa á Íslandi af Dæmisögum Esóps og áfram mætti telja hina.

Þó er ógetið bæklings sem á sínum vakti mikla athygli og var hluti af mjög illvígum innansveitardeilum á Skeiðunum en sá heitir; Helgi Hjörvar, réttir og réttarhöld. Útvarpsmaðurinn kunni Helgi Hjörvar afi alnafna síns alþingismannsins blandaði sér í mjög í þessar deilur og notaði Ríkisútvarpið óspart til að veitast að ungum og nýlega kjörnum oddvita Skeiðamanna, Jóni Eiríkssyni í Vorsabæ. Frægt er úr þeirri deilu þegar Helgi hóf einn útvarpspistil sinn um daginn veginn með svohljóðandi orðum:

Það eru tveir Jónar Eiríkssynir á Skeiðunum, annar er heiðursmaður en hinn býr í Vorsabæ.

Þó hér sé skætingi hnyttilega komið í orð er þó athyglisverðara að Vorsabæjarbóndi stóð þessar allar þessar árásir af sér og átti eftir að gegna embætti í áratugi þó að honum byðist aldrei að nota útvarpið sínum málstað til framdráttar eins og gert var í árásum á hann. Stefán Þorsteinsson á Stóra-Fljóti í Biskupstungum skrifaði umræddan bækling um málið til varnar Jóni Eiríkssyni og segir þar meðal annars:stefan_thorsteinss

Engan mann á Skeiðum hatar Helgi Hjörvar meir en Jón oddvita Eiríksson í Vorsabæ. Enda er Jón velmetinn maður og vinsæll af flestum öðrum. Hefur Helgi ekki sett sig úr færi að sýna Jóni hverskonar ruddamennsku á mannfundum og víðar. Kunnugir telja að Jón oddviti hafi verið fljótur að átta sig á fyrirbærinu Helga Hjörvar, er það slæddist inn í þessa friðsömu sveit. Jón hefur mætt honum af einurð og festu, hvort heldur hefur verið á mannamótum í Brautarholti, á hinum víðlendu ökrum í Vorsabæ eða á skrifstofu fræðslumálastjóra í höfuðstaðnum.

Í lokin skal hér getið bæklings frá 19. öldinni sem prentaður er á Ísafirði í Prentsmiðju Þjóðviljans unga 1898 og heitir Fjárdrápsmálið í Húnaþingi eða þáttr Eyjólfs og Péturs eptir Gísla Konráðsson. Hafi mönnum sem lásu rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið þótt flækjustigið hátt meðal nútíma glæpamanna er samt enginn vafi að það var enn hærra í illdeilum og braski Húnvetnskra sauðaþjófa á 19. öld.

Helstu heimildir:

Munnlegar heimildir úr Hrunamannahreppi

Sigurður Sigurmundsson: Minningagrein um Guðmund Jónsson á Kópsvatni, Mbl. 28. jan. 1989

Stefán Þorsteinsson Stóra-Fljóti: Helgi Hjörvar réttir og réttarhöld. Rv. 1956

Gazzarro: Eftirkomendur eftir eigin vali Grundvöllur hamingju hjónabandsins. Rv. 1931

Gísli Konráðsson: Fjárdrápsmálið í Húnaþingi eða Þáttr Eyjólfs og Péturs. Ísafj. 1898

                Jóhann Hannesson: Til trúmanna og trúleysingja. Rv. 1936

Pétur G. Guðmundsson: Trú og trúleysi, Rv. 1936

Jónas Jónsson frá Hriflu: Jón Hreggviðsson og glímukappi Austurstrætis, Ófeigur, Landvörn 12. árg. 3.-5.tbl. Rv. 1955                                 

Adolf Hitler: Friðarræðan. Rv. 1934

Karl Marx: Kommúnistaávarpið, Ak. 1924


Höfundur

Bókakaffið á Selfossi

NETVERSLUN OKKAR, netbokabud.is - yfir tólf þúsund titlar á frábæru verði

Bókakaffið er kaffihús og bókaverslun að Austurvegi 22 á Selfossi. Við verslum með bæði nýjar og gamlar bækur. Hér birtum umsagnir um bækur og fréttir úr kaffihúsinu og netbúðinni. Við erum líka á fésbókinni. Netfang: bokakaffid@bokakaffid.is

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband